Innlent

Almennt ánægja hjá Stúdentaráði með LÍN-frumvarp

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Kristófer, formaður Stúdentaráðs, segir ráðið vilja sjá breytingar á greiðslum.
Kristófer, formaður Stúdentaráðs, segir ráðið vilja sjá breytingar á greiðslum. Mynd/Haakon Broder Lund
Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir meðlimi ráðsins almennt ánægða með nýtt frumvarp menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki.

Ráðið hefur unnið að umsögn um frumvarpið. Kristófer segir ánægju vera meðal annars með þær breytingar að aðgreina styrktarkerfi og lánskerfi. Hann segir að ráðið sé fyrst og fremst málsvari nemenda Háskóla Íslands en að almennt virðist ríkja ánægja með frumvarpið.

„Ég veit að þau hjá Háskólanum í Reykjavík og á Akureyri eru líka sátt. Mér sýndist á umsögn frá Bifröst að þau séu ánægð líka,“ segir Kristófer en bætir við að Stúdentaráð krefjist þó nokkurra breytinga.

Helstu breytingarnar séu meðal annars að námslán verði greidd út mánaðarlega eins og á öðrum Norðurlöndum. Þá vill stúdentaráð að lánað verði fyrir að minnsta kosti 540 ects-einingum en ekki 420 eins og stendur í frumvarpinu.

„Við leggjumst einnig gegn því að það verði sett þak á námslán og teljum það ekki vera nauðsynlegt,“ segir Kristófer Már. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×