Innlent

Segir þingmenn vilja sýna sig fyrir kosningar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Reykjavíkurflugvöllur og nærliggjandi umhverfi séð úr lofti.
Reykjavíkurflugvöllur og nærliggjandi umhverfi séð úr lofti. Vísir
„Ætli þetta tengist ekki bara því að einhverjir vilji sýna sig og sanna í aðdraganda uppstillingar á lista fyrir næstu þingkosningar frekar en eitthvað annað,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um fyrirhugaða þingsályktunartillögu um að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Fréttablaðið greindi frá fyrrnefndri tillögu í gær og sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokks, að hann byggist við því að verða einn flutningsmanna hennar. Mikilvægt væri að fá fram vilja þjóðarinnar í málinu. Þá sagði Þorsteinn ólíklegt að kosningar um framtíð vallarins færu fram samhliða alþingiskosningum. Tíminn sé líklega of naumur.

Dagur B. Eggertsson
„Hún hefur ekki verið borin undir okkur, ég hef ekki séð hana, en mér skilst að þetta yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem yrði þá væntanlega ráðgefandi við borgarstjórn,“ segir Dagur og bætir því við að honum hefði þótt eðlilegra að málið yrði rætt við borgarstjórn „áður en menn tækju einhverja spretti í þessu“.

Kosningar voru haldnar á meðal borgarbúa árið 2001. Þá sögðust litlu fleiri, 49 prósent, hlynntir brottflutningi flugvallarins. 48 prósent sögðust vilja hafa völlinn áfram í Vatnsmýri og var kjörsókn 37 prósent. „Það var haldin atkvæðagreiðsla þá sem fjallaði um hvort völlurinn ætti að víkja 2016. Ég held að það endurspegli hvað svona ákvarðanir taka langan tíma. Það má ýmislegt læra af þeirri atkvæðagreiðslu sem skilaði ekki óyggjandi niðurstöðu,“ segir Dagur.

Dagur segir að ef einhver vilji ræða flugvallarmálin við borgarstjórn sé margt hægt að ræða í þeim málum. „Það er ýmislegt sem hefur verið unnið á undanförnum árum. Niðurstaða Rögnunefndar sem skilað var í fyrra er nýr grunnur til að vinna að einhverri lausn sem allir landsmenn ættu hugsanlega að geta sameinast um,“ segir Dagur. Það væri í hans huga uppbyggileg nálgun.

Flugvallarmálið segir hann mun lengra komið en það hafi verið árið 2001 þegar atkvæðagreiðslan fór fram og fleiri og álitlegri kostir séu komnir fram. 

Halldór Halldórsson borgarfulltrúi
„Ég held það væri langeðlilegast að byrja á því að skoða þá áður en einhver rýkur í atkvæðagreiðslu, já eða nei,“ segir Dagur.

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að sér finnist hugmyndin áhugaverð. „Það segir í stefnu okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að við viljum beita okkur fyrir því að borgarbúar geti kosið um flugvallarkosti þannig að mér fyndist mjög áhugavert ef það yrði haldin um þetta þjóðaratkvæðagreiðsla,“ segir Halldór.

Þá segir Halldór að meirihlutanum sé sama um flugvöllinn. „Núverandi meirihluti í borginni hefur ekki skynjað mikilvægi þess að gæta höfuðborgarhlutverksins. Þeim er alveg sama um þennan flugvöll og það er mjög slæmt mál,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×