Innlent

Vissi ekki að hann æfði með hryðjuverkasamtökum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Deilur hafa lengi staðið yfir milli Stofnunar múslima á Íslandi sem eiga Ýmishúsið og annarra trúfélaga múslima á Íslandi.
Deilur hafa lengi staðið yfir milli Stofnunar múslima á Íslandi sem eiga Ýmishúsið og annarra trúfélaga múslima á Íslandi. Vísir/Haraldur
 „Hann fór í þjálfun með þessum hópi í nokkrar vikur en vissi ekki að þetta væru hryðjuverkasamtök,“ segir Sandra Maryam Moe, stjórnarmaður Stofnunar múslima á Íslandi. Hún á við um eiginmann sinn, Andrew Ibrahim Wenham, en hann tók þátt í þjálfun á vegum hryðjuverkasamtakanna Jamaah Islamijah (JI) á Filippseyjum árið 2000. JI tengist hryðjuverkasamtökunum Al Kaída.

Fjallað var um tengsl Wenham við samtökin í áströlskum og norskum miðlum á sínum tíma eftir að Wenham flutti til Noregs ásamt Söndru. Þau reka mosku saman í bænum Tromsö.

Í samtali við miðlana sagðist Wenham, sem er ástralskur ríkisborgari, sjá eftir því að hafa komið sér í slíkan félagsskap. Hann hafi aldrei ætlað sér að verða partur af hryðjuverkasamtökum. Þvert á móti. Hann hafi ekki vitað að þetta væru hryðjuverkasamtök fyrr en eftir að hann var hættur í þjálfuninni og komin aftur til Ástralíu.

Bæði trúfélög múslima á Íslandi, Félag múslima á Íslandi og Menningarsetur múslima, eru andsnúin starfsemi Stofnunar múslima á Íslandi sem er sjálfseignarstofnun.

Fréttablaðið ræddi við nokkra múslima á Íslandi í röðum trúfélaganna tveggja sem allir könnuðust við mál Wenham. Þeir sögðu það óþægilega staðreynd að stjórnarmaður stofnunar sem kenni sem við múslima hér á landi hafi haft tengsl við hryðjuverkasamtök.

Deilur trúfélaganna tveggja við Stofnunina hafa staðið yfir lengi og snýst meðal annars um fjármagn frá Sadí-arabíu til byggingar mosku á Íslandi sem Stofnun múslima fékk.

Þeir múslimar sem Fréttablaðið ræddi við segja það afar óheppilegt að sjálfseignarstofnun sem stýrð er frá Svíþjóð sé með afskipti af málefnum múslima á Íslandi. Fjórir stjórnarmeðlimir stofnunarinnar eru búsettir erlendis og hafa lítil sem engin tengsl við landið.

Sandra Maryam Moe MYND/AÐSEND
„Þetta er deilur við hin félögin á Íslandi sem hafa staðið lengi. Þarna eru einstaklingar sem virðast vilja koma slæmu orðspori á Stofnunina. Það þarf engin að óttast þessi tengsl enda er eiginmaður minn góður maður og hefur unnið gott starf hér í Tromsö í þágu múslima. Við störfum í nánu samstarfi við aðra mosku hérna og við kirkjuna,“ segir Sandra og ítrekar að maður hennar hafi ekki áttað sig á því að hann væri tengdur hryðjuverkasamtökum.

„Samkvæmt Íslam er stranglega bannað að ráðast á saklaust fólk og það er brot á íslömskum lögum. Hann var í þessari þjálfun fyrir hryðjuverkin 11. september og þá voru hryðjuverk ekki svo áberandi. Við fordæmum hryðjuverk og þetta er ekki neitt til að hafa áhyggjur af,“ segir Sandra. Ekki náðist í Wenham við vinnslu fréttarinnar en hann er á ferðalagi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×