Innlent

Lögreglan segir eitt kynferðisbrot hafa verið kært á þjóðhátíð

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Vísir
Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram á Facebook-síðu embættisins en þar segir að brotið var kært aðfaranótt mánudags og átti sér stað skömmu eftir miðnætti. Lögreglan segir um tengda aðila að ræða og að þolandinn hafi fengið viðeigandi aðstoð. Var sakborningur handtekinn skömmu eftir að tilkynning barst lögreglu. Segir lögreglan málið teljast upplýst og rannsókn vel á veg komin.

Þá segir í sömu tilkynningu frá lögreglu að í tilefni af fréttaumfjöllun um kynferðisbrot á hátíðinni upplýsist að ekki var um kynferðisbrot að ræða í því tilviki þar sem maður var sleginn illa í andlit og höfuð heldur ótta við mögulegt brot.

Heildarfjöldi fíkniefnamála á þjóðhátíð í ár voru 30 sem lögreglan segir vera svipað og undanfarin ár að árinu 2015 undanskildu þegar upp komu 72 mál. Stærsta fíkniefnamál í sögu hátíðarinnar kom upp klukkan hálf níu síðastliðið föstudagskvöld þegar lögreglan fann mikið magn fíkniefna við hjá aðilum við gististað í bænum. Um var að ræða 180 e-töflur, tæp 100 gr. af kókaíni og tæp 100 gr. af amfetamíni. Sakborningar voru handteknir og gistu fangageymslur og var sleppt þegar rannsókn málsins var vel á veg komin.

Tíu líkamsárásir komu inn á borð lögreglu og þar af fimm alvarlegar þar sem um beinbrot í andliti er að ræða. Tvö heimilisofbeldismál komu upp og eitt brot gegn valdstjórn þar sem slegið var til lögreglumanna. Málin eru öll í rannsókn. Eitt mál kom upp er varðar eignaspjöll á bifreið og fjögur þjófnaðarbrot er tengdust þjófnuðum á gsm símum.


Tengdar fréttir

Fangageymslur hýstu nær fjörutíu um helgina

Víða voru annir hjá lögreglu um nýliðna verslunarmannahelgi. Á Þjóðhátíð í Eyjum voru um 30 fíkniefnamál og mun hafa verið tilkynnt um minnst tvö kynferðisbrotamál þar. Þá var mikið um hraðakstur á Vestfjörðum segir lögregla.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.