Innlent

Annar mannanna sem fóru í Svarfaðardalsá: „Sjálfsagt ósáttastur við sig strákgreyið“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Ég var að heyra í öðrum aðilum á áðan og hann er sjálfsagt ósáttastur við sig strákgreyið,“ sagði Felix Jósafatsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Dalvík, um annan mannanna sem léku sér að því að fara í Svarfaðardalsá í nótt.

Lögreglan og björgunarsveitir voru með mikinn viðbúnað vegna málsins eftir að tilkynning hafði borist frá vegfarenda sem kvaðst hafa orðið vitni að því að tveimur mönnum hefði verið kastað út úr bíl á brúnni yfir ána, sunnan Dalvíkur. Annar mannanna átti að hafa kastast á handrið á brúnni og yfir það og hugsanlega í ána.

Á fimmta tug björgunarsveitarmanna tóku þátt í aðgerðinni vegna útkallsins ásamt lögreglu og þá tók Landhelgisgæslan einnig þátt.

Á fjórða tímanum í nótt hafði lögreglan upp á mönnunum tveimur og kom þá fram í máli þeirra að þeir hefðu gert sér að leik að fara í ána. Þeir komu sér sjálfir á þurrt og var síðan ekið heim.

Felix Jósafatsson sagði í fréttum Bylgjunnar hafa heyrt í öðrum þeirra fyrr í dag og að hann sæi eftir öllu saman. „Hann ætlar nú að reyna að bæta fyrir þetta,“ sagði Felix en mikill kostnaður hlýst af því að ræsa svo marga út vegna björgunaraðgerðar.

Tilkynningin barst lögreglu um það leyti sem bryggjusöngnum og flugeldasýningunni var að ljúka á Fiskideginum mikla á Dalvík og fjölmenni í bænum. Reyndist erfitt fyrir lögreglu og björgunarsveitarmenn að komast í gegnum bæinn vegna þess hve margir voru þar saman komnir. „Þannig að þetta skapaði líka hættu þar,“ sagði Felix.

Þá voru mennirnir heppnir að sleppa vel að sögn Felix. „Að henda sér fram af hárri brú niður í vatn sem ekki er vitað hvað er djúpt og hvort það er grjót eða sandur, það gleymist að hugsa um það. Þetta er það hátt og þeir heppnir að lenda í það djúpu vatni að þeir meiddu sig ekki.“

Búast má við að mennirnir tveir verði kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins.


Tengdar fréttir

Léku sér að því að fara í ána

Fjölmennt lið lögreglu og björgunarsveitarmanna var kallað út vegna tveggja manna er kastað höfðu sér út í Svarfaðardalsá við Dalvík í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×