Innlent

Þingkona Framsóknar segir frumvarp um að draga úr vægi verðtryggingar vera vonbrigði

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Þingmaður Framsóknarflokksins segir boðað frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem mun draga úr vægi verðtryggingar valda vonbrigðum. Það sé ábyrgðarlaust gagnvart kjósendum flokksins að reyna ekki að ganga lengra og afnema verðtrygginguna fyrir kosningar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun á næstu dögum leggja fyrir ríkisstjórn frumvarp sem miðar að því að draga úr vægi verðtryggingar. Greint var frá málinu í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi en Bjarni sagði samstöðu um málið í ríkisstjórn.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir drög að frumvarpinu hafa verið kynnt fyrir þingflokki flokksins í vor.

„Það sem ég sá þar fannst mér góðar tillögur fyrir þann hóp sem aðgerðin náði til, en mér finnst við miða við of þröngan hóp fólks og hefði viljað sjá dýpri útfærslur til breiðari hóps varðandi þetta mál. Umræður hefðu átt sér stað innan þingflokksins um hvernig hægt verður að breyta frumvarpinu þannig að það nái til stærri hóps.“

Áttu von á að leggja fram breytingar á frumvarpinu til að ganga lengra en að aðeins draga úr vægi verðtryggingar?

„Mér þætti það ábyrgðarlaust gagnvart okkar kjósendum sem kusu okkur í síðustu kosningum ef við myndum ekki reyna hafa áhrif á málið í þá veru.“

Þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem fréttastofa ræddi við í dag tóku undir með Elsu Láru um að ekki væri nóg að draga úr vægi verðtryggingar. Afnema þyrfti hana að fullu.

„Við höfum verið að bíða eftir útfærslum og þá sjáum við þessa sem er núna að fara að koma, sem sagt drög að henni í vor, um að draga úr vægi verðtryggingar. Ég verð að segja að þrátt fyrir mikla og góða vinnu sem hefur átt sér stað hjá fjölda fólks þá hef ég orðið fyrir vonbrigðum til hversu afmarkaðs hóps þessi aðgerð nær til,“ segir Elsa Lára.


Tengdar fréttir

Draga úr vægi verðtryggingar

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir að lögð verði fram frumvörp um verðtrygginguna og séreignasparnað á fyrstu dögum þingsins. Þetta segir hann í samtali við RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×