Enski boltinn

Martínez líklegur til að taka við Hull

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martínez gæti verið á leið til Hull.
Martínez gæti verið á leið til Hull. vísir/getty
Roberto Martínez er efstur á lista forráðamanna Hull City yfir mögulega arftaka Steve Bruce sem sagði upp störfum sem knattspyrnustjóri liðsins á föstudaginn.

Ehab Allam, varastjórnarformaður Hull, hefur umsjón með ráðningarferlinu og samkvæmt heimildum The Guardian hefur hann mikinn áhuga á að fá Martínez til starfa á KC Stadium.

Martínez var rekinn sem knattspyrnustjóri Everton síðasta vor og er í starfsleit. Spánverjinn hefur einnig stýrt Swansea City og Wigan Athletic á stjóraferli sínum.

Tæpar þrjár vikur eru þar til enska úrvalsdeildin hefst og ástandið hjá Hull er ekki gott. Liðið er ekki einungis stjóralaust heldur hefur lítið gerst á félagaskiptamarkaðinum og þá glíma margir leikmenn liðsins við meiðsli. Auk þess ríkir mikil óvissa um eignarhald Hull.

Mike Phelan tók við Hull til bráðabirgða eftir að Bruce hætti en hann hefur lýst yfir áhuga á að taka við liðinu til frambúðar.

Hull tekur á móti Englandsmeisturum Leicester City í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar laugardaginn 13. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×