Innlent

Grátlegt að 25 ára gamalt ljóð eigi enn við í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Banna átti beygjuna þar sem banaslysið varð. Í dag afhentu leigubílstjórar af Suðurnesjum innanríkisráðherra áskorun um úrbætur á svæðinu.
Banna átti beygjuna þar sem banaslysið varð. Í dag afhentu leigubílstjórar af Suðurnesjum innanríkisráðherra áskorun um úrbætur á svæðinu. Vísir/Jóhann
Leigubílstjórar af Suðurnesjum munu afhenda Ólöfu Nordal innanríkisráðherra áskorun um úrbætur í samgöngumálum á Reykjanesbraut nú í hádeginu. Þeir standa jafnframt fyrir hópakstri til minningar um Jóhannes Hilmar Jóhannesson, sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 7. júlí síðastliðinn.

Leigubílstjórar af A-stöðinni á Suðurnesjum munu leiða hópaksturinn, en Jóhannes Hilmar starfaði sem afleysingabílstjóri á stöðinni. Farið verður frá sveitarfélaginu Garði að gatnamótum Reykjanesbrautar og Hafnarvegar, þar sem Jóhannes lést. Þar mun Ólöf Nordal taka við áskoruninni klukkan hálf eitt.

Hér má sjá hópinn samankominn í dag.Vísir/Jóhann
Valur Ármann Gunnarsson er talsmaður leigubílstjóra á A-stöðinni Suðurnesjum.

„Við ákváðum eftir þetta hræðilega slys, þar sem einn félagi okkar sem var afleysingarbílstjóri hjá okkur um helgar, lést í mótorhjólaslysi. Þá ákváðum við að koma okkar sjónarmiðum á framfæri við samgönguráðherra og boðuðum hana til fundar við okkur á þessum gatnamótum, þennan dag.”

Valur segir alla þá sem láta málið sig varða velkomna, en farið verður frá Garði klukkan tíu mínútur yfir tólf, í lögreglufylgd. Hann segir mikilvægt að stjórnvöld bregðist skjótt við. Bæði sé viðhaldi verulega ábótavant ásamt því sem breikka þurfi Reykjanesbrautina.

„Við erum náttúrulega bara að fara fram á það að þessi framkvæmd við breikkun Reykjanesbrautarinnar verði kláruð. Það er löngu tímabært og ég mun afhenda þarna opið bréf til samgönguráðherra sem ég skrifaði fyrir 25 til 30 árum þar sem ég hvatti til breikkunar brautarinnar. Gerði það í ljóðaformi og setti mig í spor látinna í þessu ljóði. Það mun fylgja þessari áskorun og það er grátlegt að það skuli enn eiga við í dag eftir hartnær þrjátíu ár að það er ekki búið að klára þessi verkefni. Á meðan deyr fólk.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×