Enski boltinn

Jóhann Berg: Þetta var besti kosturinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var kynntur sem leikmaður Burnley í dag. Hann segist vera ánægður að vera kominn í ensku úrvalsdeildina.

„Það var eitthvað annað í boði en ég ætla ekkert að fara nánar út í það. Mér fannst þetta besti kosturinn,“ sagði Jóhann Berg í samtali við Vísi í dag.

Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Burnley sem vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í vor eftir árs fjarveru.

„Leikmannahópurinn er nokkuð svipaður og síðast en þeir eru klárlega reynslunni ríkari núna. Þeir voru ekki langt frá því að halda sér uppi síðast. Það er auðvitað markmiðið og við eigum góða möguleika á því,“ sagði Jóhann Berg sem hefur æfingar með Burnley á mánudaginn eftir um þriggja vikna frí.

Jóhann Berg segir að síðasta tímabil með Charlton og EM hafi tekið sinn toll en hann verði klár á mánudaginn.

„Síðasta tímabil og EM tók mikið á. Það var hundleiðinlegt að falla með Charlton en það var allt annað í gangi á EM. Á mánudaginn er ég búinn að vera einhverjar þrjár vikur í fríi, það er minna en venjulega en samt feyki nóg,“ sagði Jóhann Berg sem hreifst af liði Burnley á síðasta tímabili er það vann B-deildina.

„Þetta er lið sem er með allt á hreinu og er í mjög góðu formi. Við þurfum að hafa það í úrvalsdeildinni, við þurfum að vera í betra formi en hin liðin í vetur og vita nákvæmlega hvert okkar plan er.“

Nánar verður rætt við Jóhann Berg í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×