Sport

Velkomin til helvítis

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þessi sjón blasti við fólkinu sem var að koma til Ríó á dögunum.
Þessi sjón blasti við fólkinu sem var að koma til Ríó á dögunum.
Það er innan við mánuður í Ólympíuleikana í Ríó og áhyggjur af öryggismálum eru miklar.

Yfirvöld í Brasilíu ætla að flytja 85 þúsund lögreglumenn til Ríó í ágúst til þess að vernda íþróttamennina og ferðamenn en ekki er víst að af því verði.

Lögreglumenn hafa nefnilega ekki fengið laun í marga mánuði og það verður erfitt að fá þá til þess að sinna sínum störfum.

Svo slæm er staðan að yfirvöld hafa sett af stað söfnun svo hægt sé að greiða löggæslumönnum í landinu og hafa allt í standi í ágúst.

Lögreglumenn stóðu fyrir mótmælum í flugstöðinni í Ríó de Janeiro á dögunum.

Þar voru þeir mættir með borða sem á stóð: „Velkomin til helvítis. Lögreglu- og slökkviliðsmenn fá ekki greitt hérna. Þeir sem koma hingað eru ekki öruggir.“

Á svipuðum tíma skolaði líkamspörtum á land á Copacabana-ströndinni en rétt við verður strandblakskeppni Ólympíuleikana haldin.

Staðan í Brasilíu er því ekki góð þegar mjög stutt er í leikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×