Innlent

Kona sýknuð af ákæru um gáleysi eftir að hafa ekið á barn í Kópavogi

Birgir Olgeirsson skrifar
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Hari
Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað 27 ára gamla konu af ákæru um að hafa valdið líkamsmeiðingum af gáleysi eftir að hafa ekið á dreng á níunda ári fyrir utan verslun Krónunnar í Vallakór í Kópavogi í maí í fyrra.

Atvikið var með þeim hætti samkvæmt ákæru að kona hugðist stöðva bifreiðina á bifreiðastæði framan við gangstétt en án aðgæslu stigið á bensíngjöf bifreiðarinnar í stað bremsunnar með þeim afleiðingum að bíllinn hafnaði á drengnum þannig að hann klemmdist á milli bifreiðarinnar og húsveggjar. Hlaut drengurinn brot á mjaðmagrind, lærleggsbol, neðri enda lærleggs og efri hluta sköflungs, kramningaráverka á læri, mörg sár á læri, hné og fótlegg og maráverka á læri.

Var konan í æfingaakstri þegar þetta gerðist. Bæði hún og leiðbeinandi hennar báru fyrir dómi að konan hafi ekið bifreiðinni löturhægt eftir bílastæðinu. Drengurinn hafi svo komið hlaupandi á gangstéttinni og leiðbeinandinn hrópað: „Stopp, stopp, stopp.“ Sögðu bæði konan og leiðbeinandinn að henni hefði brugðið svo mikið og því stigið á bensíngjöf í stað hemils.

Konan var sýknuð af öllum ákæruliðum, þar með talið að hafa valdið líkamsmeiðingum af gáleysi og fyrir brot á umferðarlögum. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness kom fram að reynsluleysi konunnar sem ökumanns yrði ekki metið sem gáleysi. Þá þótti dómnum ekki séð að konan hafi brotið umferðarlög eða settar reglur um æfingaakstur með akstri umrætt sinn og ekki annað leitt í ljós en að hún og leiðbeinandi hennar hafi farið eftir þeim ráðum sem í ökunámsbók getur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×