Lífið

Sigga Hlö ofboðið og baulaði á Bubba í Hörpu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Siggi var annars ánægður með tónleikana.
Siggi var annars ánægður með tónleikana. vísir/eyþór/vilhelm
„Ég var staddur þarna í yndislegu afmæli þegar hann hélt bara framboðsræðu,“ segir útvarpsmaðurinn Sigurður Hlöðversson, sem var á afmælistónleikum Bubba Morthens í gær. Bubbi varð 60 ára í gær og hélt af því tilefni afmælistónleika í Hörpunni.

Bubbi er greinilega mikill aðdáandi Andra Snæs Magnasonar, forsetaframbjóðanda, og fór fögrum orðum um hann á tónleikunum. Siggi Hlö var ekki paránægður með áróðurinn og stóð upp og púaði.

„Ég kunni bara illa við þetta og fannst þetta algjörlega óviðeigandi og taktlaust. Þetta átti bara ekkert við í sextugs afmæli, að vera með framboðsfund. Ég púaði því nokkuð hressilega á hann og það voru nokkrir þarna í kringum mig sem störðu hreinlega á mig,“ segir Siggi sem fékk enginn viðbrögð frá Bubba í kjölfarið.

„Hann er náttúrulega orðinn heyrnalaus elsku kallinn og kominn með heyrnatæki. Ég ætlaði svo sem ekkert að fara slást eitthvað við hann þarna, en mig langaði bara að lýsa yfir óánægju minni með þetta. Að öðru leyti var þetta alveg frábært kvöld og æðislegir tónleikar.“

Siggi segir að það þori aldrei neinn að mótmæli Bubba. „Hann er bara kóngurinn en ég lét vaða. Það skipti mig engu máli hvaða frambjóðanda hann var að mæla með, þetta snérist ekkert um það. Þarna voru 1500 manns saman komin í Hörpunni, allir búnir að kaupa sig rándýrt inn og mér fannst þetta ekki viðeigandi. Hvort var ég í afmæli eða á framboðsfundi?“

Þess má geta að Siggi Hlö hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við Höllu Tómasdóttur en auglýsingastofan Pipar/TBWA, sem Siggi á hlut í, starfar við framboð Höllu.

Uppfært klukkan 16:00

Bubbi Morthens hefur svarað Sigga Hlö og vonar að boð á tónleika, í mat og afmælisgjöf hafi ekki sett líf hans á hliðina. Þetta hafi verið skoðun Bubba og hann hafi tekið það skýrt fram. Svarið má sjá hér að neðan.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×