Innlent

Jarðskjálfti í Bárðarbungu: „Við verðum að vera vakandi og fylgjast með“

Bjarki Ármannsson skrifar
Jarðskjálftinn sem varð í Bárðarbunguöskjunni í morgun mældist 4,4 að stærð en jarðskjálftavirkni hefur að sögn Magnúsar Tuma verið að aukast nú í vor.
Jarðskjálftinn sem varð í Bárðarbunguöskjunni í morgun mældist 4,4 að stærð en jarðskjálftavirkni hefur að sögn Magnúsar Tuma verið að aukast nú í vor. Vísir
Stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur í Bárðarbungu frá goslokum í febrúar í fyrra varð í morgun. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að meira þurfi til að gos hefjist á ný en að fylgjast þurfi vel með aðstæðum.

Jarðskjálftinn sem varð í Bárðarbunguöskjunni í morgun mældist 4,4 að stærð en jarðskjálftavirkni hefur að sögn Magnúsar Tuma verið að aukast nú í vor.

„Það hafa ýmsar skýringar verið á aukinni skjálftavirkni en ég held að flestir hallist nú að því að þetta tengist kvikusöfnun á verulegu dýpi undir Bárðabungu núna eftir að gosinu lauk,“ segir Magnús Tumi.

Sjá einnig: Vísindamenn hafa auga með Bárðarbungu

Hann segist telja að eitthvað meira þurfi til ef gjósa á aftur en bendir á að atburðarásin í Bárðabunguöskjunni er mjög óvenjuleg og því þurfi áfram að fylgjast með jarðhræringunum þar.

„Öskjusig er frekar fátíður atburður,“ segir hann. „Það eru sjö öskjusig þekkt í heiminum öllum síðustu hundrað árin og ennþá færri þar sem til eru nákvæmar mælingar. Við vitum að það er óvanalegt að það verði umtalsvert eldgos fyrr en eftir svolítinn tíma í eldstöðvum þar sem það verður öskjusig. En þetta eru svo óvanalegar aðstæður að við verðum að vera vakandi og fylgjast með.“


Tengdar fréttir

Yfir 6.000 jarðskjálftar frá goslokum

Jarðskjálftar í og við Bárðarbungu eru tíðir og margir all stórir. Tíðni þeirra hefur aukist frá haustdögum. Vísindamenn fylgjast grannt með og í undirbúningi er að setja upp mælitæki á fjallinu. Sagan kennir að næstu ár gæti B




Fleiri fréttir

Sjá meira


×