Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands í fótbolta, hefur ákveðið að lögsækja fyrrverandi samherja sinn í landsliðinu, Eric Cantona, vegna ásakana um kynþáttaníð.
Cantona sagði á dögunum að Deschamps hefði ekki valið Hatem Ben Arfa og Karim Benzema í landsliðshóp Frakklands fyrir EM 2016 vegna þjóðaruppruna þeirra. Báðir eru af norðurafrískum uppruna.
Benzema fór á kostum með Real Madrid í vetur og Ben Arfa spilað vel fyrir Nice í Frakklandi en þrátt fyrir það komust þeir ekki í landsliðið
Deschamps er reiður vegna ásakanna Manchester United-goðsagnarinnar og lét lögmann sinn stefna Cantona þannig þeir munu mætast fyrir rétti vegna ummælanna.
„Ég mun fara með þetta mál fyrir dómstóla til að refsa Cantona fyrir þessi niðrandi og ærumeiðandi orð sem svo sannarlega gera lítið úr heiðarleika herra Deschamps,“ segir Carlos Brusa, lögmaður Didier Deschamps í viðtali við franska íþróttablaðið L'Equipe.

