Enski boltinn

Dudek íhugaði að kýla Benitez

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dudek tryggir hér Liverpool sigur í Meistaradeildinni. Hann sat nánast á bekknum það sem eftir lifði ferilsins.
Dudek tryggir hér Liverpool sigur í Meistaradeildinni. Hann sat nánast á bekknum það sem eftir lifði ferilsins. vísir/getty
Pólski markvörðurinn Jerzy Dudek var svo reiður út í Rafa Benitez, er þeir voru báðir hjá Liverpool, að hann íhugaði í fullri alvöru að lemja stjórann sinn.

Dudek vann Meistaradeildina fyrir Liverpool árið 2005 í vítaspyrnukeppni en var svo varpað á haugana af Benitez. Spánverjinn keypti Pepe Reina sumarið eftir að Liverpool vann Meistaradeildina og það bitnaði eðlilega á Dudek sem var ekki lengur aðalmarkvörður félagsins.

Hann fór á bekkinn og spilaði aðeins tólf leiki næstu tvö tímabil og þar af aðeins átta í deildinni.

Dudek að skeggræða við Benitez.vísir/getty
„Ég var hetjan í Istanbúl en nú átti ég að verða slökkviliðsmaður. Bíða eftir tækifærinu til þess að slökkva elda,“ sagði Dudek í ævisögu sinni sem heitir A Big Pole In Our Goal.

Benitez sagði Dudek að Köln hefði áhuga á að fá hann. Dudek var klár í að stökkva á það svo hann gæti spilað. Ekkert varð af sölunni og Köln sagði að það væri Benitez að kenna.

„Ég var brjálaður út í Benitez og ræddi þetta við hann. Í hausnum á mér heyrði ég rödd sem sagði mér að kýla hann í andlitið. Kýldu hann bara og þá færðu að fara til Þýskalands,“ skrifar Dudek.

Hann endaði með því að taka tímabil á bekknum og fara svo til Real Madrid þar sem hann sat á bekknum þar til hann hætti árið 2011. Hann náði aðeins að spila tvo leiki fyrir Real Madrid á fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×