Enski boltinn

Veðmálafyrirtæki tapa tveimur milljörðum ef Leicester vinnur titilinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mörk Jamie Vardy gera veðmálafyrirtækjunum engan greiða.
Mörk Jamie Vardy gera veðmálafyrirtækjunum engan greiða. vísir/getty
Helstu veðmálafyritæki Bretlandseyja munu tapa um 1,8 milljarði íslenskra króna fari svo að Leicester vinni Englandsmeistaratitilinn eins og allt stefnir til. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fyrir tímabilið voru líkurnar hjá sumum veðmálafyrirtækjunum að Leicester myndi standa uppi sem meistari allt að 5.000 á móti einum og þá voru líkurnar 1.000 á móti einum að Refirnir yrðu á toppnum um jólin.

Leicester er með fimm stiga forskot á Tottenham þegar fjórar umferðir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur aðeins tapað þremur leikjum á tímabilinu og verður pottþétt meistari ef það vinnur þrjá af síðustu fjórum leikjum liðsins.

Betfred er eina veðmálafyrirtækið sem er búið að borga út vinninga vegna Leicester en það gerði fyrirtækið eftir 1-0 sigur liðsins á Southampton 3. apríl.

„Ég hef áður haft rangt fyrir mér en ég sé ekki Tottenham eða Arsenal ná strákunum hans Ranieri,“ segir Fred Done, yfirmaður hjá Betfred.

Fyrir tímabilið voru 47 manns hjá Betfred sem veðjuðu á að Leicester yrði meistari með stuðulinn 5.000 á móti einum en 23 af þeim eru búnir að leysa peninginn út. Restin bíður enn eftir stóru upphæðinni.

Væntanlegt tap veðmálafyrirtækjanna í milljónum króna:

Ladbrokes: 534 milljónir

Coral: 356 milljónir

William Hill: 356 milljónir

Paddy Power: 356 milljónir

Betfred: 196 milljónir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×