Enski boltinn

Manchester United tilbúið að hlusta á tilboð í Memphis

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Breski miðillinn Mirror slær því upp á vefsíðu sinni í dag að Manchester United sé búið að fá nóg og sé tilbúið að hlusta í tilboð í hollenska ungstirnið Memphis Depay eftir aðeins eitt ár í herbúðum liðsins.

Það voru miklar væntingar gerðar til Memphis eftir að enska félagið reiddi fram 25 milljónir punda fyrir hollenska landsliðsmanninn Memphis en hann var markahæsti leikmaður hollensku deildarinnar á síðasta tímabili.

Memphis byrjaði tímabilið vel með tveimur mörkum í öðrum leik tímabilsins en hann hefur ekki náð sér á strik undanfarna mánuði og eytt töluverðum tíma á varamannabekk liðsins og utan hóps þess í stað.

Samkvæmt heimildum Mirror hafa forráðamenn Manchester United og knattspyrnustjóri liðsins, Louis Van Gaal, fengið nóg af honum og hafa haft samband við lið víðsvegar um Evrópu til að kanna áhuga á kantmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×