Enski boltinn

Hazard vonast til þess að Leicester verði meistarar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eden Hazard, leikmaður Chelsea og belgíska landsliðsins í fótbolta, segir að leikmenn Chelsea vonist til þess að Leicester hampi titlinum þegar tímabilinu lýkur.

Tottenham er eina liðið sem getur komið í veg fyrir að öskubuskuævintýri Leicester endi með titli í maí en Chelsea á eftir að mæta báðum liðum á næstu vikum.

Þrátt fyrir að fjórir belgískir leikmenn leiki með Tottenham segir Hazard að leikmenn Chelsea ætli að reyna að aðstoða Leicester í titilbaráttunni og tók Cesc Fabregas undir orð hans.

„Allir sem koma að Chelsea, leikmenn og stuðningsmenn, vilja ekki sjá Tottenham vinna titilinn. Leicester á meistaratitilinn skilinn og við munum vonandi setja strik í reikning Tottenham um næstu helgi,“ sagði Hazard en Fabregas sem lék áður með erkifjendum Totteham í Arsenal tók í sama streng.

„Ég held að Leicester muni klára þetta og það verður verðskuldað. Ég vill ekki sjá Tottenham taka á móti bikarnum en ég myndi elska að sjá Leicester taka bikarinn,“ sagði Fabregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×