Enski boltinn

Petrov vill fá að spila aftur fyrir Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stiliyan Petrov.
Stiliyan Petrov. Vísir/Getty
Stiliyan Petrov, fyrrum fyrirliði Aston Villa, hefur ekkert spilað síðan árið 2013 þegar hann greindist með bráðahvítblæði, en óskar þess nú að fá að spila aftur með sínu liði.

 

Aston Villa féll á dögunum úr ensku úrvalsdeildinni og spilar því ensku B-deildinni á næstu leiktíð.

Stiliyan Petrov er orðinn 36 ára gamall en hann var búinn að leggja skóna á hilluna á meðan hann fór í gegnum krabbameinsmeðferðina.

Það var fyrir þremur árum síðan en núna er Stiliyan Petrov farinn að æfa á fullu á nýjan leik.

Stiliyan Petrov kom til Aston Villa frá Celtic árið 2006 og lék alls 218 leiki fyrir félagið í öllum keppnum auk þess að spila 92 landsleiki fyrir Búlgaríu.

Stiliyan Petrov sagði frá þessum draumi sínum í viðtali við Birmingham Mail.

„Ég er mjög spenntur. Fólk mun auðvitað koma með marga spurningar og margir munu efast," sagði Stiliyan Petrov við Birmingham Mail.

„Ég er að nálgast það form sem ég var í þegar ég hætti. Við skulum bara sjá til hvernig þetta þróast. Það er í forgangi hjá mér að komast aftur að hjá Aston Villa," sagði Petrov.



Aston Villa hefur staðið vel við bakið á Stiliyan Petrov.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×