Enski boltinn

Messan: Er þessi lýsing Rikka G nógu góð til að fá starf á Sky Sports?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörvar Hafliðason hélt áfram að stríða vini sinum Ríkharði Óskari Guðnasyni, betur þekktum sem Rikka G, í Messunni í gærkvöldi.

Rikki G lenti nefnilega illa í Hjörvari og fleirum og lét plata sig svakalega í síðustu viku eins og frægt er orðið. Hrekkurinn var klassískur um leið enda mikið í hann lagt.

Vinnufélagar Rikka G ákváðu að fíflast aðeins í honum og fengu breska menn með sér í lið. Bretarnir sögðu við Rikka G að þeir væru frá Sky-sjónvarpsstöðinni og báðu hann um að lýsa fyrir sig í gegnum síma.  

„Ég veit hvernig þessi hrekkur var unninn og hann var stórkostlega vel unninn. Okkur langaði að sjá hvernig þessi tilfinningaríka lýsing í síma hefði nú litið út í alvörunni ef hann hefði verið að lýsa þessum leikjum," sagði Hjörvar Hafliðason í Messunni áður en hann setti myndbandið í loftið.

Sjá einnig:Símahrekkur Brennslunnar: Rikki G hélt að hann væri að lýsa fyrir Sky

Í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan er búið að setja myndbönd frá úrslitaleik Meistaradeildarinnar milli Manchester United og Bayern München í Barcelona árið 1999 og leik Hollands og Íslands í undankeppni EM 2016 á Amsterdam Arena undir þessa mögnuðu lýsingu frá Rikka G.

Rikki G heldur að hann sé að lýsa fyrir sjónvarpsmennina á Sky og gefur allt í þetta. Í landsleiknum bætir hann síðan þjóðarstoltinu inn í pakkann og fer inn á sitt stórbrotna látíðnisvið.

Það er vissulega hægt að stríða Rikka G fyrir að ganga í gildruna en hver hefði ekki ráðið Rikka G á staðnum eftir þessa lýsingu?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×