Enski boltinn

Fyrrverandi leikmaður Víkings bestur í D-deildinni á Englandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kemar Roofe fór illa með Swansea.
Kemar Roofe fór illa með Swansea. vísir/getty
Kemar Roofe, fyrrverandi leikmaður Víkings, var í kvöld útnefndur besti leikmaður ensku D-deildarinnar þar sem hann leikur með Oxford.

Roofe, sem kom til Víkings árið 2011 og spilaði tvo leiki í Pepsi-deildinni án þess að skora, hefur spilað vel fyrir Oxford á tímabilinu og skorað ellefu mörk í 29 leikjum af miðjunni.

Fyrr á tímabilinu tók hann sig til og skaut D-deildarliðinu áfram í bikarnum á móti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea. Hann setti tvö mörk á Svanina í 3-2 bikarsigri.

Roofe kom til Víkings sem hluti af stuttu samstarfi Fossvogsfélagsins og West Bromwich Albion. Hann komst ekki á blað í deildinni en skoraði í 2-0 bikarsigri Víkinga gegn KV á gervigrasvelli KR í vesturbænum.

Eftir dvöl sína hjá Víkingi spilaði hann nokkra leiki sem lánsmaður hjá Northhampton Town, Cheltenham og Colchester áður en hann gekk í raðir Oxford á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×