Enski boltinn

Tottenham á toppnum á mörgum tölfræðilistum

Óskar Ófeigur Jónson skrifar
Leikmenn Tottenham fagna marki í gær.
Leikmenn Tottenham fagna marki í gær. Vísir/Getty
Tottenham er kannski fimm stigum á eftir toppliði Leicester City þegar fjórar umferðir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni en þeir er á toppnum á mörgum tölfræðilistum.

Tottenham væri svo gott sem orðið enskur meistari ef tölfræðin fengi að ráða til um það. Tottenham-liðið er á toppnum á mörgum stöðum í tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar. Reuters hefur tekið saman frábæra stöðu Tottenham í tölfræðinni það sem af er tímabilinu.

Tottenham vann 4-0 sigur á Stoke City í lokaleik 34. umferðar í gærkvöldi og minnkaði forskot Leicester niður í fimm stig þegar tólf stig eru eftir í pottinum.

Harry Kane skoraði tvö mörk í leiknum og er nú með tveggja marka forystu í baráttunni um markakóngstitil deildarinnar.

Tottenham hefur skorað flest mörk í deildinni (64) og er líka það lið sem hefur fengið fæst mörk á sig (25).

Spurs-liðið er líka það lið sem hefur átt flest skot á mark (234), það lið sem hefur skapa flest færi (449) og þá hefur ekkert lið skorað fleiri mörk úr föstum leikatriðum (17).

Mótherjar Tottenham hafa náð 132 færri skotum á mark Tottenham en leikmenn Tottenham.

Markatala Tottenham er líka afar glæsileg eða 39 mörk í plús eða ellefu mörkum betri en liðið sem er með næstbestu markatöluna í deildinni sem er Manchester City.

Dele Alli hefur gefið 7 stoðsendingar á Harry Kane í deildinni sem er það mesta sem einn maður hefur lagt upp fyrir einn leikmann en Mesut Ozil hefur gefið 6 stoðsendingar á Olivier Giroud og Riyad Mahrez hefur lagt upp fimm mörk fyrir Jamie Vardy.

Daninn Christian Eriksen lagði upp tvö mörk í gærkvöldi og aðeins Mesut Özil hefur lagt upp fleiri mörk á tímabilinu. Eriksen hefur einnig hlaupið meira en allir miðjumenn ensku úrvalsdeildarinnar eða 12,2 km að meðaltali í leik.

Knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino er búinn að búa til magnað lið á White Hart Lane og framtíðin er líka þeirra því Tottenham er með yngsta byrjunarliðið í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×