Enski boltinn

Frá Bruce til Chicharito: Sjáðu tíu af mikilvægustu mörkunum á Old Trafford

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chicharito og Bruce skoruðu mikilvæg mörk.
Chicharito og Bruce skoruðu mikilvæg mörk. vísir/getty
Frakkinn ungi Anthony Martial tryggði Manchester United sigur gegn Everton, 1-0, á Old Trafford í lokaleik 32. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöldi.

Með markinu varð Martial markahæstur í United-liðinu á leiktíðinni en það sem meira er þá var þetta mark númer 1.000 sem Manchester United skorar á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni.

Ekkert lið hefur skorað fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni, bæði á heimavelli og í heildina, síðan hún var stofnuð árið 1992 sem er kannski eðlilegt þar sem liðið hefur unnið úrvalsdeildina þrettán sinnum.

Twitter-síða Manchester United birti í dag myndband af tíu af mikilvægustu mörkunum sem liðið hefur skorað á Old Trafford í gegnum tíðina. United hefur auðvitað spilað marga mikilvæga leiki í toppbaráttunni og því úr mörgum mörkum að velja.

Fyrsta markið sem er sýnt er vitaskuld skallamark Steve Bruce, miðvarðarins öfluga, sem tryggði liðinu sigur á Sheffield Wednesday í apríl 1993. Það mark fór langt með að tryggja liðinu fyrsta Englandsmeistaratitilinn í 26 ár.

Síðustu tvö mörkin í myndbandinu á svo Mexíkóinn Javier Hernández. Það fyrra er gegn Chelsea í maí 2011 og það síðara í desember gegn Newcastle 2012. Bæði mörkin áttu stóran þátt í að tryggja Manchester United titilinn bæði tímabilin.

Þessi tíu mikilvægu mörk United má sjá í myndbandinu hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×