Enski boltinn

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Leeds pyntaður í fangelsi í Dubai

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Haigh.
David Haigh. vísir/getty
David Haigh, fyrrverandi framkvæmdastjóri enska knattspyrnufélagsins Leeds, segist hafa verið pyntaður þegar hann sat í fangelsi í Dubai í 23 mánuði, en hann fékk frelsi sitt í síðasta mánuði.

Hann segist í viðtali við Yorkshire Evening Post hafa fimm sinnum lent í því að vera pyntaður auk þess sem hann horfði upp á samfanga sína lenda í því sama. Yfirvöld í Dubai hafa ekki svarað ásökunum hans.

Haig var handtekinn í Dubai í maí 2014 ásakaður um fjársvik af sínum fyrrverandi vinnuveitanda GHF Capital. Fyrirtækið, sem keypti Leeds árið 2012, er með höfuðstöðvar sínar í Dubai.

GFH Capital heldur því fram að Haigh hafi falsað reikninga og ólöglega fært peninga inn á bankareikninga sem hann stjórnaði. Þessu hefur hann ávallt neitað og segir að sökinni hafi verið komið á hann.

Haigh átti að losna úr fangelsi 16. nóvember á síðasta ári en tveimur dögum fyrr var hann ákærður aftur fyrir að skrifa ljóta hluti um viðskiptafélaga sinn á Twitter. Hann var síðar sýknaður og losnaði úr fangelsinu í mars.

Teygjubyssa og rafbyssa

„Ég var kýldur, barinn og þá var notuð rafbyssa á mig. Fólk reyndi að misþyrma mér kynferðislega. Ég á í miklum vandræðum með augun á mér núna því mér var haldið í myrkri allan tímann og það fer illa með augun,“ segir Haigh um veruna í fangelsinu.

Hann lýsir aðstæðunum sem hryllilegum í fangelsinu og segir að þar hafi hann fundið lykt af hlutum sem engum langar að upplifa á sinni ævi.

„Ég mun aldrei gleyma þessu. Ég sat þarna og lögreglan var að pynta mann fyrir aftan mig. Ég veit ekki hvað han gerði af sér en honum var kastað á gólfið, rafbyssa notuð á hann, það var sparkað í höfuðið á honum og þá notaði lögreglan teygjubyssu á punginn á manninum,“ segir Haig.

„Þeir voru að reyna að hræða mig og sögðu að ég þyrfti að játa. Ef ég myndi játa það yrði allt miklu betra og þá gæti ég farið. En ef ég myndi ekki játa myndi ég vera þarna í tíu ár,“ segir David Haigh.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×