Enski boltinn

Zlatan kærir lækninn sem sakaði hann um að nota ólögleg lyf

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic ætlar að kæra samlanda sinn, lækninn Ulf Karlsson, fyrir ærumeiðingar, en læknirinn sagði Zlatan hafa notað ólögleg lyf fyrr á sínum ferli.

„Zlatan þyngdist um tíu kíló á sex mánuðum [fyrr á sínum ferli]. Ég held að hann hafi verið að dópa. Þannig lítur þetta út fyrir mér,“ hefur verið haft eftir sænska lækninum.

Zlatan hefur ekki tjáð sig um þetta sjálfur en hinn málglaði umboðsmaður hans, Mino Raiola, var ekki lengi að svara fyrir skjólstæðing sinn í viðtali við Expressen.

„Við munum kæra hann. Ég er enginn sérfræðingur en við erum með sænskan lögfræðing sem við segjum ekki hver er. Frá því verður greint síðar,“ segir Raiola.

„Það er alltaf til fólk sem hatar. Kannski er læknirinn fyrrverandi íþróttamaður sem náði ekki alla leið. Kannski er hann bara öfundsjúkur.“

„Þessi maður gerði mikil mistök. Hann átti sér líf áður en hann lét þetta út úr sér og hann mun eiga sitt líf áfram en hann er bara að dreifa lygum,“ segir Mino Raiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×