Enski boltinn

Enginn verri fyrir framan markið en Memphis

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Memphis Depay hefur átt erfiðan vetur á Englandi.
Memphis Depay hefur átt erfiðan vetur á Englandi. vísir/getty
Það er óhætt að segja að fyrsti vetur hollenska framherjans Memphis Depay á Englandi hafi ekki verið góður. Þessi 22 ára gamli leikmaður hefur verið langt frá því að standa undir væntingum.

Memphis kvaddi hollensku úrvalsdeildina á síðustu leiktíð sem meistari með PSV, markahæsti leikmaður deildarinnar og besti ungi leikmaðurinn, en hann skoraði einnig úr aukaspyrnum eins og þær væru vítaspyrnur.

Memphis er aðeins búinn að skora tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni í 23 leikjum, en hann er aðeins búinn að byrja fjórtán leiki eftir að Louis van Gaal tók hann úr liðinu. Hann er í heildina búinn að skora sjö mörk í 39 leikjum í öllum keppnum.

Þessi annars sparkvissi leikmaður er lang slakasta skyttan í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð samkvæmt tölfræðivefnum Whoscored.com, en hann hefur tekið saman tíu verstu skotmennina. Lágmarkið er að hafa skotið 30 sinnum að marki.

Alexis Sánchez þarf að miða betur.vísir/getty
Tvö mörk úr 47 tilraunum gerir 4,3 prósent skotnýtingu sem er sú versta af öllum í deildinni. Í öðru sæti er Suður-Kóreumaðurinn Heung-Min Son með 6,7 prósent skotnýtingu og Wilfried Bony hjá Manchester City er ekki að nýta færin sín með 7,3 prósent nýtingu á sínum skotum.

Á eftir þeim koma svo leikmenn á borð við Fabio Borini, Cameron Jerome og Rudy Gestede, en í níunda sæti er nokkuð óvænt nafn; Alexis Sánchez.

Sílemaðurinn, sem byrjaði leiktíðina svo vel, er búinn að skora átta mörk í ensku úrvalsdeildinni en skotnýting hans er aðeins 9,5 prósent. Jordan Ayew hjá Aston Villa er í tíunda sætinu með 9,4 prósent.

Þegar litið er til bestu skotmannanna þá trónir Jermaine Defoe, framherji Sunderland, á toppnum með 21,9 prósent skotnýtingu og Riyad Mahrez, leikmaður toppliðs Leicester, er í öðru sæti með 20,5 prósent skotnýtingu.

Fimm bestu:

Jermaine Defoe, Sunderland - 21,9 prósent

Riyad Mahrez, Leicester - 20,5 prósent

Jamie Vardy, Leicester - 19,6 prósent

Georginio Wijnaldum, Newcastle - 19,6 prósent

Diego Costa, Chelsea - 18,3 prósent

Fimm verstu:

Memphis Depay, Manchester United - 4,3 prósent

Heung-Min Son, Tottenham - 6,7 prósent

Wilfried Bony, Manchester City - 7,3 prósent

Fabio Borini, Sunderland - 8,1 prósent

Cameron Jerome, Norwich - 8,3 prósent




Fleiri fréttir

Sjá meira


×