Tíska og hönnun

Fatahönnunarnemar taka höndum saman við Rauða krossinn

Guðrún Ansnes skrifar
Tískusýning annars árs nema við LHÍ í samstarfi við Rauða Krossinn.
Tískusýning annars árs nema við LHÍ í samstarfi við Rauða Krossinn. Vísir/Ernir
„Þetta er byggt á námskeiði sem ég hef kennt lengi og fjallar um hönnunarferli og það að vinna með textíl beint. Rauði krossinn kom svo að máli við mig og fékk nemendur til að stílisera fyrir sig í svokallaðri Nytjaviku fyrir jól. Það gekk svona líka vel svo við létum til skarar skríða,“ segir Katrín María Káradóttir, aðjúnkt og fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands. Um ræðir sýninguna Misbrigði sem runnin er undan rifjum annars árs nema í faginu og fór fram síðastliðið föstudagskvöld í Hörpu.

Er sýningin samstarf nemenda og fatasöfnunar Rauða krossins. Segist Katrín hafa haft hugmyndina að þess konar verkefni töluvert lengi í kollinum.

„Ég var alltaf að gæla við þetta. Hvert erum við að stefna varðandi neyslu á textíl og fatnaði? Ég fékk svo upplýsingar frá Rauða krossinum og þá kviknaði þessi hugmynd, að gera umfangsmikla sýningu með þessum hætti án þess að slaka á sköpunarkraftinum.“

Vísir/Ernir
Aðspurð um hvernig nemendur hafi tileinkað sér hugmyndina svarar Katrín: „Þetta hefur bara verið rosalega gaman og nemendurnir eru algjörlega upptendraðir. Við finnum öll að heimurinn er að breytast og við verðum að horfast í augu við að þessar auðlindir sem við eigum eru ekki endalausar. Við verðum að huga að alvöru endurvinnslu. Þetta er engin spurning um að við þurfum að vinna betur með það sem við höfum í höndunum.“

Vísir/Ernir
Katrín segir sýninguna á laugardaginn þó aðeins fyrri hluta sýningarferlisins, því í apríl muni verða blásið til annarrar sýningar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×