Enski boltinn

Zlatan: Lið á Englandi hafa sýnt mér áhuga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan og félagar eru þegar búnir að tryggja sér franska meistaratitilinn.
Zlatan og félagar eru þegar búnir að tryggja sér franska meistaratitilinn. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Paris Saint-Germain og sænska landsliðsins, segir að lið í ensku úrvalsdeildinni hafi sýnt honum áhuga.

Samningur Zlatans við PSG rennur út í sumar og England hefur verið nefnt til sögunnar sem næsti áfangastaður á ferli hans.

„Það er áhugi til staðar. Ég get staðfest það,“ sagði Zlatan sem verður 35 ára í október.

„Þetta er stærsta og vinsælasta deild í heimi. Þegar öll spilin hafa verið lögð á borðið tek ég ákvörðun. Þetta er eins og í hjónabandi. Báðir aðilar verða að vera ánægðir.“

Zlatan segir afar ólíklegt að hann verði áfram í herbúðum Frakklandsmeistara PSG.

„Samningurinn minn rennur út í lok júní. Eins og staðan er í dag verð ég ekki lengur hjá félaginu. Við eigum ekki í viðræðum,“ sagði Zlatan sem hefur ekki miklar áhyggjur af því að hann verði í vandræðum með að finna sér nýtt lið til að spila með.

„Við sjáum hvaða kostir bjóðast og þeir verða eflaust margir. Framtíðin lítur mjög vel út. Það á margt eftir að gerast í sumar svo þetta snýst um að sýna þolinmæði. Það verður örugglega eitthvað til að skrifa um.“

Zlatan hefur skorað 141 mark í 169 leikjum fyrir PSG síðan hann kom til félagsins frá AC Milan 2012 en á þessum tíma hefur liðið fjórum sinnum orðið franskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×