Enski boltinn

Stjórnarformaður West Ham staðfestir áhuga á Zlatan

Hver er næsti áfangastaður Zlatans?
Hver er næsti áfangastaður Zlatans? Vísir/getty
David Sullivan, annar eiganda West Ham, staðfesti í samtali við bresku útvarpsstöðina talkSPORT í dag að Zlatan Ibrahimovic væri einn af framherjunum sem liðið væri að skoða.

Samningur sænska framherjans rennur út í sumar og hefur Zlatan verið orðaður við stærstu lið ensku úrvalsdeildarinnar undanfarna mánuði.

Zlatan staðfesti að hann vissi af áhuga enskra liða á honum en hann hefur orðið meistari í fjórum löndum, Hollandi, Ítalíu, Spáni og Frakklandi.

„Við erum að skoða tíu framherja víðsvegar um Evrópu og við erum tilbúnir að leggja fram háa fjárhæð fyrir rétta framherjann. Ég yrði hoppandi kátur ef Zlatan myndi skrifa undir en hvort hann sé tilbúinn að ganga til liðs við West Ham veit ég ekki,“ sagði Sullivan sem vonast til að liðið taki skref fram á við á næsta ári þegar liðið flytur á nýjan leikvang.

„Leikmannahópurinn sem við erum með núna er sá langbesti sem við höfum haft þessi sex ár sem við höfum átt félagið. Við munum bæta við þennan leikmannahóp og vonast til að ná enn betri árangri á næsta ári. Það eru nokkrir frábærir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni sem við munum leggja fram tilboð í en ég get ekki nefnt nein nöfn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×