Innlent

Meintur nauðgari í áframhaldandi gæsluvarðhald

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Karlmaður sem grunaður er um að hafa reynt að nauðga tveimur konum í fyrra hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald.
Karlmaður sem grunaður er um að hafa reynt að nauðga tveimur konum í fyrra hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. vísir/heiða helgadóttir
Hæstiréttur úrskurðaði í gær karlmann í gæsluvarðhald til 11. apríl næstkomandi vegna gruns um að hafa reynt að nauðga tveimur konum í desember í fyrra. Maðurinn, sem hefur verið ákærður af héraðssaksóknara, hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 18. desember.

Maðurinn er grunaður um tvær tilraunir til nauðgana aðfaranótt sunnudagsins 13. desember í miðbæ Reykjavíkur. Honum er gefið að sök að hafa veist að tveimur konum með skömmu millibili í því skyni að hafa við þær samræði.

Í ákærunni segir að konurnar hafi báðar hlotið áverka og samkvæmt framburðum þeirra og annarra vitna hafi það orðið þeim til bjargar að ákærði varð fyrir utanaðkomandi truflun. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar þar sem maðurinn neitaði sök.

Mynd sem lögreglan óskaði eftir að birt yrði í fjölmiðlum af meintum árásarmannimynd/lrh
Gekk aftan að henni og greip um munn hennar

Fyrri árásin átti sér stað á Tjarnargötu í Reykjavík en tilkynning um hana barst lögreglu klukkan 3.05 um nóttina. Á vettvangi hitti lögreglan fyrir stúlku sem var í miklu uppnámi. Hún sat í snjónum í rifnum buxum og grét. Hún lýsti því að hún hafi verið að ganga heim úr bænum þegar hún tók eftir manni sem gekk fyrir aftan hana á Tjarnargötunni. Hann hafi gengið mjög nálægt henni, hún hafi orðið hrædd og vikið sér til hliðar svo maðurinn gæti gengið framhjá henni.

Maðurinn hafi hins vegar stoppað ofar í götunni en stúlkan hélt för sinni áfram. Þegar hún gekk fram hjá manninum hafi hann svo gripið í hana, reynt að taka af henni símann og kallað hana „bitch“. Hann hafi þá gripið um munn stúlkunnar, ýtt henni að húsinu, rifið buxurnar hennar og reyndi að hneppa frá sínum buxum. Hún hafi þá öskrað eins hátt og hún gat. Í skýrslutöku lögreglu sagði stúlkan að maðurinn hafi verið harkalegur við hana en hún öskraði meira og þá kom fólk að þeim. Við það hafi maðurinn farið.

Nokkrar mínútur á milli

Einungis fimm mínútum eftir að lögreglu barst tilkynning um árásina barst lögreglu tilkynning um aðra árás á stúlku í Þingholtsstræti. Þar hafi lögregla hitt stúlkuna sem var grátandi og í miklu uppnámi. Hún lýsti því að hafa verið ein á gangi upp Bankastræti þegar maður hafi komið aftan að henni og lagt hendur yfir axlir hennar. Maðurinn hafi svo gripið fastar og fastar utan um hana og hún reynt að losa sig en hann hafi þá gripið um munn hennar og gengið ákveðið með hana inn Þingholtsstræti.

Þau hafi ekki verið komin langt inn götuna þegar maðurinn hafi svo kastað henni utan í bíl sem lagt var í Þingholtsstræti og reynt að setjast klofvega yfir hana. Kvaðst stúlkan að sér hefði liðið allan tímann eins og hann ætlaði að nauðga henni en síðan hafi líklega einhver komið að því allt í einu hafi maðurinn hlaupið í burtu.

Önnur árásin öll til á upptöku

Á meðal gagna í málinu eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum miðbæjarins þar sem maðurinn sést á gangi í Tjarnargötu og þá er seinni árásin öll til á upptöku.

Myndir úr myndavélunum voru birtar í fjölmiðlum þann 16. desember síðastliðinn að beiðni lögreglu. Fjöldi ábendinga hafi borist lögreglu í kjölfarið og þá hafði maðurinn sjálfur haft samband við lögreglu og kvaðst þekkja sig á myndunum.

Að mati lögreglu er ljóst af upptökum úr eftirlitsmyndavélum, lýsingum vitna og stúlknanna á útliti og klæðaburði mannsins að um sama árásarmann er að ræða í báðum tilfellum. Eins og áður segir er hann nú í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til 19. janúar en þau brot sem hann er grunaður um geta varðað allt að 16 ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×