Innlent

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna gruns um tilraunir til tveggja nauðgana

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndir úr eftirlitsmyndavélum voru birtar í fjölmiðlum 16. desember síðastliðinn.
Myndir úr eftirlitsmyndavélum voru birtar í fjölmiðlum 16. desember síðastliðinn. mynd/lrh
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að karlmaður sæti gæsluvarðhaldi allt til 14. mars vegna tveggja tilrauna til nauðgana aðfaranótt 13. desember í fyrra. Maðurinn, sem hefur verið ákærður af héraðssaksóknara vegna málsins, hefur setið í varðhaldi frá 18. desember, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá Þorláksmessu á grundvelli almannahagsmuna.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti kemur meðal annars fram að brotið sem maðurinn er grunaður um „sé þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.“ Þetta er í annað skipti sem varðhald er framlengt yfir manninum.

Reif buxur stúlkunnar og reyndi að hneppa frá sínum eigin

Maðurinn er grunaður um tvær árásir sama kvöld. Lögregla var kölluð í Tjarnargötu skömmu eftir klukkan þrjú um nóttina en á vettvangi hittu þau stúlku í miklu uppnámi. Hún hafði verið á leið heim úr miðbænum þegar hún tók eftir manni sem gekk í humátt á eftir henni. Hún vék sér til hliðar svo hann gæti gengið fram hjá henni.

Maðurinn stoppaði ofar í götunni en þegar stúlkan ætlaði að ganga fram hjá honum á hann að hafa gripið í hana, reynt að taka af henni símann og kallað hana „bitch“. Síðan hafi hann gripið um munn hennar, ýtt henni upp að húsi í götunni meðan hann reif buxurnar hennar og reyndi að hneppa frá sínum eigin. Stúlkan segir að hún hafi öskrað þar til fólk kom að en um það leiti hafði maðurinn sig á brott.

Myndbandsupptökur meðal gagna málsins

Fimm mínútum eftir fyrri tilkynninguna barst tilkynning um aðra árás í Þingholtsstræti. Sú stúlka var grátandi þegar lögreglu bar að og í miklu uppnámi. Bar hún því við að á gangi upp Bankastræti hafi maður komið aftan að henni og lagt hendi yfir axlir hennar. Stúlkan reyndi að losa sig en maðurinn herpti þá takið, greip um munn hennar og gekk inn Þingholtsstræti.

Þegar í Þingholtsstræti var komið kastaði árásarmaðurinn henni utan í bíl og reyndi að setjast klofvega ofan á hana. Stúlkan bar því við að henni hafi allan tíman liðið þannig að maðurinn hafi ætlað að nauðga henni. Skyndilega hóf hann sig á brott en líklegt þykir að einhver hafi komið að þeim.

Á meðal gagna málsins eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem sýna manninn á ferð í Tjarnargötu og þá er síðari árásin öll til á upptöku. Myndir úr upptökuvélum voru birtar í fjölmiðlum 16. desember og þekkti maðurinn sjálfan sig á upptökunni. Maðurinn neitar sök í málinu.

Aðalmeðferð í málinu verður þann 30. mars.


Tengdar fréttir

Löggan leitar að þessum manni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir því að ná tali af manni vegna máls sem er til rannsóknar. Myndina má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×