Enski boltinn

United-mönnum kippt niður á jörðina | Sjáðu markið og rauða spjaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mata gengur af velli eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið hjá Mike Dean, dómara leiksins.
Mata gengur af velli eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið hjá Mike Dean, dómara leiksins. Vísir/Getty
Salomon Rondón skoraði eina mark leiksins þegar West Brom tók á móti Manchester United í lokaleik 29. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í dag.

United var búið að vinna fjóra leiki í röð í öllum keppnum fyrir leikinn í dag en lærisveinum Luis van Gaal var snögglega kippt niður á jörðina.

Leikurinn var fremur rólegur en það dró til tíðinda á 26. mínútu þegar Juan Mata fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Darren Fletcher, fyrirliða West Brom og fyrrverandi leikmanni United.

Þrátt fyrir liðsmuninn ógnuðu heimamenn lítið, ekki fyrr en á 66. mínútu þegar Rondón skoraði eina mark leiksins með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Sebastien Pocognoli frá vinstri. Þetta var sjöunda mark Venesúelamannsins á tímabilinu.

Fleiri urðu mörkin ekki og West Brom fagnaði góðum sigri sem skilar liðinu upp í 11. sæti deildarinnar.

United er enn í 6. sæti með 47 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Mata fær rauða spjaldið West Brom 1-0 Man Utd



Fleiri fréttir

Sjá meira


×