Enski boltinn

Shearer: McClaren er í vondum málum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það gengur ekkert hjá Steve McClaren og lærisveinum hans.
Það gengur ekkert hjá Steve McClaren og lærisveinum hans. vísir/getty
Newcastle-goðsögnin Alan Shearer er ekki sáttur með stöðuna á sínu gamla liði.

Newcastle beið lægri hlut, 1-3, fyrir nýliðum Bournemouth á heimavelli í gær en liðið er í 19. og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með einungis 24 stig eftir 28 leiki.

Shearer var harðorður í garð Newcastle-liðsins og knattspyrnustjóra þess, Steve McClaren, í Match of the Day á BBC í gærkvöldi.

„Hann (McClaren) er í vondum málum, hann verður að taka hluta af sökinni á sig. En félagið er í tómu rugli, frá toppi til táar,“ sagði Shearer sem skoraði 206 mörk í 405 leikjum fyrir Newcastle á árunum 1996-2006.

Shearer benti einnig á að þrátt fyrir leikmenn Newcastle segist styðja McClaren gefi spilamennska þeirra það ekki til kynna.

„Ef þetta er frammistaða sem á sýna að við stöndum við bakið á stjóranum, þá er liðið í miklum vandræðum,“ sagði Shearer sem stýrði Newcastle á lokasprettinum tímabilið 2008-09 þegar liðið féll síðast úr úrvalsdeildinni.

Newcastle mætir toppliði Leicester City í næstu umferð en svo taka við tveir sex stiga leikir í fallbaráttunni; gegn Sunderland og Norwich City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×