Enski boltinn

Inler brjálaður út í Ranieri: "Mér verður óglatt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gökhan Inler fær ekkert að spila.
Gökhan Inler fær ekkert að spila. vísir/getty
Gökhan Inler, miðjumaður Leicester í ensku úrvalsdeildinni, er brjálaður út í Claudio Ranieri, knattspyrnustjóra liðsins, fyrir að hafa hálfpartinn platað sig til að yfirgefa ekki Refina í janúar en leyfa honum svo ekkert að spila.

Inler átti að vera ein af stóru kaupunum hjá Leicester þegar hann kom frá Napoli síðasta sumar, en þessi 31 árs gamli Svisslendingur hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum í úrvalsdeildinni.

„Það sýndu mér mörg lið áhuga í janúar en ég fór ekki því stjórinn sagði að hann treysti á mig,“ sagði Inler við fréttamenn.

Ranieri var svo lítið að treysta á Inler því hann hefur ekki spilað mínútu í úrvalsdeildinni á nýju ári og ekki verið í leikmannahópnum í fimm af síðustu sex leikjum.

„Mér verður óglatt að tala um þetta. Það heimskulega fyrir mig er að ég á fyrir höndum Evrópumót með Sviss í sumar,“ sagði Inler.

„Ég er í mikilvægri stöðu fyrir sjálfan mig. Vanalega tala ég nú ekki af mér en ég verð að segja hlutina eins og þeir eru. Það er engin ástæða fyrir mig að sykurhúða hlutina,“ sagði Gökhan Inler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×