Innlent

Innflutningur að nálgast metárið 2007

Svavar Hávarðsson skrifar
Heildarinnflutningur um Faxaflóahafnir var 2,4 milljónir tonna.
Heildarinnflutningur um Faxaflóahafnir var 2,4 milljónir tonna. vísir/gva
Töluverð aukning var í flutningum um hafnarsvæði Faxaflóahafna á síðasta ári, og aðallega vegna aukins innflutnings. Aðeins árið 2007 sýnir meiri flutninga í gegnum hafnarsvæði félagsins.

Þetta sýna bráðabirgðatölur um flutninga, en í heildina varð tæplega fjögurra prósenta aukning á flutningum. Innflutningur jókst um 8,3 prósent en útflutningur dróst saman um tæp fjögur prósent og vega þar þyngst vörur frá stóriðju.

Heildarflutningar voru um 3,8 milljónir tonna, þar af almennur innflutningur 3,4 milljónir tonna; útflutningur var 842 þúsund tonn.

Af einstökum tegundum innflutnings má sjá að innflutningur á bifreiðum, byggingavörum og eldsneyti jókst merkjanlega.

Þegar bifreiðainnflutningur er skoðaður sérstaklega voru í fyrra fluttir inn 31.470 bílar, en fæstir urðu þeir árið 2009 eða 3.580. Árið 2005 voru þeir 41.660. Tæp 90.000 tonn voru flutt inn af byggingarvörum en 67.800 tonn árið 2009. Árið 2007 voru flutt inn 196.809 tonn af byggingarvörum.

Eins og fréttir hafa ítrekað sýnt fram á þá þarf að hafa fjölgun ferðamanna á Íslandi á tímabilinu í huga. Árið 2014 keyptu bílaleigur einn af hverjum fjórum nýjum bílum.

Árin 2007 til 2011 voru erlendir gestir í kringum 500.000 en þeir munu hafa verið um 1,3 milljónir í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×