Enski boltinn

Fékk ekki samning hjá City fyrir 11 árum en verður nú launahæstur í sögunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola tekur við Manchester City í sumar og fær vel borgað fyrir sín störf.
Pep Guardiola tekur við Manchester City í sumar og fær vel borgað fyrir sín störf. vísir/getty
Spánverjinn Pep Guardiola verður næsti knattspyrnustjóri Manchester City. Greint var frá því í gær að hann tekur við af Sílemanninum Manuel Pellegrini eftir að tímabilinu lýkur.

Guardiola verður launahæsti knattspyrnustjóri sögunnar, samkvæmt frétt enska blaðsins Daily Mail. Spánverjinn fær 300.000 pund í laun á viku eða 56 milljónir íslenskra króna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guardiola og Manchester City eiga í viðræðum, en fyrir ellefu árum síðan reyndi hann að gerast leikmaður liðsins.

Frétt BBC frá ágúst 2005.mynd/skjáskot
Ráðinn af sama manni

Spánverjinn var virkilega öflugur leikmaður á sínum ferli og vann spænsku 1. deildina sex sinnum með uppeldisfélagi sínu Barcelona. Hann var á mála hjá Barcelona frá 1990-2001 áður en hann gekk í raðir Brescia og svo Roma.

Guardiola fór 32 ára til Katar og spilaði með Al-Ahli, en var svo boðið á viku reynslu hjá Manchester City í ágúst 2005 þegar hann var 34 ára gamall.

Stuart Pearce, þáverandi stjóri City, bauð Börsungnum á reynslu en vildi svo ekki semja við hann að loknum reynslutímanum. Guardiola fór þá til Mexíkó og spilaði í eitt ár áður en hann lagði skóna á hilluna.

Guardiola hætti 2006 en gerðist þjálfari B-liðs Barcelona ári síðar og tók svo við starfi aðalliðs Barcelona 2008 þegar Frank Rijkaard hætti.

Maðurinn sem barðist fyrir því að ráða Guardiola en ekki José Mourinho á þeim tíma var Txiki Begiristain, þáverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona. Hann sinnir sama starfi í dag hjá Manchester City.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×