Innlent

Segir að íslenskar konur vanti dass af kæruleysi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anna Steinsen segir að konur í dag taki of mikið að sér og setji miklar kröfur á sig að standa sig vel á öllum sviðum. Þetta valdi þeim mikilli streitu og segir Anna að á ýmsum sviðum sé íslenska ofurkonan hreinlega að kafna úr streitu. Anna hefur haldið námskeið, meðal annars fyrir ungar konur sem eru klára menntaskóla og að byrja í háskóla.

„Ungar konur sem eru að koma, klára kannski menntaskóla á þremur árum í staðinn fyrir fjórum, taka liggur við 500 einingar á önn og svo eru þær í íþróttum og að borða rétt og allt þetta. Svo eru þær að pósta þessu á Facebook og þar eru allir að segja „Oh, þú ert svo dugleg,“ þannig að við erum að ýta undir þetta. [...] Þannig að þær bara hugsa með sér „Já, þetta er rétt, svona á ég að vera“ og þar með er komin pressa,“ segir Anna en hún ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hún segir þetta þó ekki einskorðast við ungar konur heldur einnig þær sem eldri eru. Þá sé hún líka að tala almennt og þetta eigi ekki við allar konur en margar þeirra séu þó að halda öllum þessum boltum á lofti:

„Það er að standa sig vel í vinnunni, vera með heimilið fallegt og halda því hreinu, elda matinn, sjá um krakkana, og auðvitað eru karlarnir að taka þátt í þessu en að einhverju leyti erum við að taka of mikið að okkur held ég og setja meiri kröfur.“

Anna segir að það segi sig sjálft að eitthvað gefi sig þegar svo mikið er í gangi í daglega lífinu. Það vanti dass af kæruleysi og að konur séu oft á tíðum of hræddar við að gera mistök. Hún nefnir hlutfall kvenna í fjölmiðlum sem lengi hefur verið mun lægra en hlutfall karla.

„Það er verið að reyna að fá konur í fjölmiðlana en við förum oft ekki í fjölmiðlana því við vitum ekki alveg hvað við eigum að segja 150 prósent á meðan karlarnir eru bara „Já, já, þetta reddast.“ Okkur vantar þetta dass af kæruleysi,“ segir Anna.

Hlusta má á viðtalið við hana í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×