Fótbolti

Van Nistelrooy kennir Alberti að skora

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Guðmundsson fær goðsögn sem þjálfara.
Albert Guðmundsson fær goðsögn sem þjálfara. vísir/getty
Ruud van Nistelrooy, fyrrverandi leikmaður Manchester United, Real Madrid og hollenska landsliðsins, hefur verið ráðinn í þjálfarastarf hjá Hollandsmeisturum PSV Eindhoven.

Van Nistelrooy, sem varð Hollandsmeistari með PSV árin 2000 og 2001, mun þjálfa sóknarmenn U17, U19 og varaliðs PSV, að því fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Einn þeirra framherja sem Nistelrooy mun kenna að skora mörk er Albert Guðmundsson, sonur Guðmundar Benediktssonar, en hann er fastamaður í U19 ára liði PSV og U19 ára landsliðið Íslands.

„Ég hlakka mikið til míns nýja starfs hjá PSV þar sem ég mun hjálpa ungum framherjum að verða eins góðir og þeir geta orðið,“ segir Ruud van Nistelrooy.

Hollendingurinn er einn skæðasti framherji sem sést hefur í heimsfótboltanum undanfarna áratugi, en hann afrekaði að verða markakóngur í Hollandi með PSV, á Englandi með Manchester United og á Spáni með Real Madrid.

Hann skoraði 75 mörk í 91 leik fyrir PSV og varð Hollandsmeistari í tvígang, 150 mörk í 219 leikjum fyrir Manchester United og varð Englandsmeistari einu sinni, og 64 mörk í 96 leikjum fyrir Real Madrid, en hann varð Spánarmeistari tvisvar sinnum með Madrídarrisanum.

Nistelrooy starfaði síðast sem aðstoðarþjálfari hollenska landsliðsins, bæði undir Guus Hiddink og síðar Danny Blind eftir að Hiddink var rekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×