Enski boltinn

Jürgen Klopp ætlar að kaupa Chicharito

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fagnar Chicharito mörkum fyrir Liverpool á næstu mánuðum?
Fagnar Chicharito mörkum fyrir Liverpool á næstu mánuðum? vísir/getty
Javier Hernández, mexíkóski landsliðsframherjinn sem leikur með Bayer Leverkusen í Þýskalandi, gæti snúið aftur til Englands innan tíðar. Samkvæmt enska blaðinu The Times er eitt af forgangsatriðum Jürgen Klopp að kaupa Chicharito til Liverpool, og helst í janúar.

Fram kemur þó að afar tæpt sé að Liverpool nái að kaupa framherjann fyrir lok félagskiptaluggans á mánudaginn og verður enska félagið því að bíða fram á sumar.

Chicharito, sem fór til Bayer frá Manchester United í ágúst, er búinn að fara á kostum með þýska liðinu og gæti kostað Liverpool allt að 20 milljónir punda. Louis van Gaal taldi sig ekki hafa not fyrir Mexíkóann sem er heldur betur búinn að sanna að Hollendingurinn hafði rangt fyrir sér.

Hjá Bayer Leverkusen er Chicharito búinn að skora 19 mörk í 23 leikjum, þar af 11 mörk í 15 deildarleikjum og fimm mörk í sex Meistaradeildarleikjum.

Framherjakvartett Liverpool samanstendur af Daniel Sturridge, Christian Benteke, Roberto Firmino og Danny Ings, en Klopp er sagður vilja bæta í raðirnar.

Ings er frá út tímabilið og ekki er hægt að treysta á Sturridge vegna meiðsla. Firmino er búinn að skora fimm mörk í deildinni, þar af fjögur í síðustu þremur leikjum, en Benteke er búinn að skora sex mörk í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×