Innlent

Yfir 100 björgunarsveitarmenn kallaðir út vegna neyðarkalls farþegaþotunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Yfir 100 björgunarsveitarmenn kallaðir út vegna þotunnar.
Yfir 100 björgunarsveitarmenn kallaðir út vegna þotunnar. mynd/landsbjörg
Mikill viðbúnaður var hjá björgunarsveitum Landsbjargar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu vegna neyðarkalls frá farþegaþotu WestJet sem lenti heilu á höldnu á Keflavíkurflugvelli klukkan 14.40 í dag með bilaðan hreyfil.

130 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út vegna vélarinnar en um borð voru 258 farþegar en vélin var á leið frá London til Edmonton í Kanada.

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia segir í samtali við Vísi að honum hafi skilist að farþegum liði vel en ekki liggur fyrir hvort að gert verði við vélina hér og svo haldið áfram eða hvort að ný vél verði fengin til að fara með farþegana til Kanada. Þá getur verið að einhverjir vilji ekki halda för sinni áfram en Guðni kveðst ekki hafa upplýsingar varðandi það.

Annar hreyfill vélarinnar var með lítið afl en flughæfni vélarinnar var þó ekki skert. Flugstjórarnir báðu um hitamyndavél svo hægt væri að kanna hvort hiti væri í hreyflinum. Svo reyndist ekki vera.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×