Erlent

Sjálfsmorðsprengjuárás gerð á mosku í Kabúl

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Öryggisverðir fyrir utan moskuna.
Öryggisverðir fyrir utan moskuna. Vísir/AFP
Talið er að allt að 27 manns hafi látið lífið í Kabúl, höfuðborg Afganistan í dag þegar maður sprengdi sig í loft upp. Um 35 manns særðust þar að auki en þetta kemur fram í frétt BBC. Árásin var gerð á mosku í borginni.  

Að sögn yfirvalda var árásarmaðurinn klæddur sprengjuvesti og sprengdi hann sig í loft upp meðal fólksins í moskunni. Moskan tilheyrir sjía-múslímum en ofbeldi tengt trúarbrögðum er mun óalgengara í Afganistan heldur en í Írak og Pakistan. Sjía-múslímar eru 15% af íbúfjölda Afganistan og hafa árásir á þá aukist undanfarna mánuði og var til að mynda gerð vopnuð árás á helgistað þeirra fyrr í mánuðinum.

Herskáir íslamistar úr röðum Íslamska ríkisins hafa áður gert svipaðar árásir í Afganistan en í júlímánuði síðastliðnum réðust þeir á sjía-múslíma í kröfugöngu í Kabúl þar sem 80 manns létu lífið.  

Talíbanar, sem undanfarin ár hafa róið að því öllum árum að endurheimta völd sín í landinu voru fljótir að þvertaka fyrir að bera ábyrgð á árásinni og gekk talsmaður þeirra Zabihullah Mujahid svo langt að fordæma hana þess í stað.

Enn hefur enginn hópur lýst yfir ábyrgð á árásinni.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×