Innlent

Sveinbjörg Birna biður grunnskólabörn um myndir af skólamatnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Vísir/Valli
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, óskar eftir því að grunnskólabörn taki ljósmyndir af hádegismatnum sem boðið er upp á í skólum þeirra. Hún segist hafa fengið á borð til sín margar kvartanir þess efnis að maturinn sé vart boðlegur, og ætlar að taka málið upp á borgarstjórnarfundi á þriðjudag.

„Matarmál í grunn- og leikskólum hefur verið mjög til umræðu. Við ætlum að setja á dagskrá tillögu í tengslum við matarmálin og ég hefði gjarnan viljað safna myndum og setja upp slideshow á fundinum,“ segir Sveinbjörg í samtali við Vísi.

Fullt tilefni til endurskoðunar

Sveinbjörg segist hafa fengið kvartanir bæði frá foreldrum og börnum. Því sé fullt tilefni til þess að fara yfir þessi mál.

„Það eru svo margir að kvarta undan þessu, börn og fullorðnir. Sjálf á ég fjögur börn í grunnskóla og þau hafa verið að tala um að maturinn sé vondur, grjónagrauturinn til dæmis útþynntur og lasagna bara með baunum. Þá veltir maður því líka fyrir sér hvort kennarar séu að fá sama mat og börnin,“ segir hún.

Hún kallar jafnframt eftir upplýsingum um hvernig eftirliti með matarmálum í skólum sé háttað. „Við þurfum að fá að vita hvernig eftirliti er háttað til dæmis hvað varðar næringa- og hitaeiningagildi og að því sé framfylgt.“

Sveinbjörg hvetur grunnskólabörn og fullorðna til þess að senda sér ljósmyndir, fyrir næstkomandi þriðjudag, á Facebook eða í gegnum netfangið sveinbjorgbs@reykjavik.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×