Innlent

Sérstakt mansalsteymi hjá Vinnumálastofnun

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Vinumálastofnun rannsakaði þrjú möguleg mansalsmál á fimm mánuðum frá nóvember til apríl. Fréttablaðið/Hanna
Vinumálastofnun rannsakaði þrjú möguleg mansalsmál á fimm mánuðum frá nóvember til apríl. Fréttablaðið/Hanna
„Við trúum því að þetta sé skref í rétta átt og reynum að tryggja að þessi mál komist í viðeigandi farveg,“ segir Gísli Davíð Karlsson, lögfræðingur hjá Vinnumálastofnun, en stofnunin hefur komið upp sérstöku teymi sem sér um mansalsmál.

Í teyminu starfa þrír starfsmenn sem sjá um að tryggja fræðslu fyrir starfsfólk stofnunarinnar. Það er gert til að starfsmenn hafi næga þekkingu til að taka eftir þeim atriðum sem þarf að sjá til að átta sig á hvort um fórnarlömb mansals er að ræða.

Hins vegar ber teymið ábyrgð á því að taka við af starfsmönnum stofnunarinnar ef grunur vaknar um hugsanlegt fórnarlamb.

„Hvort sem það er þá skjólstæðingur okkar eða til að mynda einstaklingur í atvinnuleit eða útlendingur sem starfar hjá atvinnurekanda á innlendum vinnumarkaði,“ segir Gísli Davíð.

Gísli Davíð Karlsson
Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að nýjar áherslur væru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en nú vinnur lögreglan í samstarfi við Europol sem lætur henni í té upplýsingar um helstu áherslur í löggæslu í Evrópu hverju sinni.

Karl Steinar Valsson, tengifulltrúi Íslands hjá Europol, sagði að í dag væri mikil áhersla lögð á mansalsmál og er það meðal annars ástæðan fyrir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti upp sérstaka einingu sem sér um mansalsmál.

Snorri Birgisson lögreglufulltrúi starfar í því teymi og segir það nú vinna náið með ýmsum stofnunum í mansalsmálum. Til að mynda eigi teymið nú gott samstarf við Vinnumálastofnun.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafa komið upp þrjú tilfelli hjá stofnuninni frá því í nóvember á síðasta ári þar til í apríl á þessu ári, þar sem grunur hefur vaknað um að aðstæður séu verulega óviðundandi í fyrirtækjum hér landi. Í einu þessara tilvika vaknaði sterkur grunur um mansal.

„Ef slíkur grunur vaknar þá óskum við eftir aðstoð lögreglu. Nú tryggjum við að þessi mál komist í viðeigandi farveg,“ segir Gísli og bætir við að þekking á þessu sviði sé að aukast.

Að sögn Gísla hefur aukin þekking og umræða haft í för með sér að fólk tekur meira eftir mansalsmálum.

„Erlendum starfsmönnum fjölgar mikið hér á landi og það er mikil uppbygging í gangi á Íslandi. Það býður ákveðinni hættu heim,“ segir Gísli Davíð Karlsson.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×