Innlent

Slasaðist við drykkju en vildi bætur fyrir uppvasksslys

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn sagði að hann hefði slasast við uppvask en það stemmdi ekki við lögregluskýrslur. Myndin er úr safni og tengist aðilum fréttarinnar ekki neitt.
Maðurinn sagði að hann hefði slasast við uppvask en það stemmdi ekki við lögregluskýrslur. Myndin er úr safni og tengist aðilum fréttarinnar ekki neitt. vísir/getty
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur hafnað áfrýjun manns um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga. Með því staðfesti nefndin niðurstöðu Sjúkratryggingar.

Samkvæmt sögu mannsins hafði hann runnið til í bleytu þegar hann var að ganga frá í eldhúsi sínu eftir matseld. Við það féll hann á gólfið og slasaðist við það. Maðurinn sótti um bætur þar sem hann væri slysastryggður vegna heimilisstarfa en Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu því.

Ástæðan fyrir synjuninni var sú að samkvæmt lögregluskýrslu þá slasaðist maðurinn ekki við heimilsstörf heldur þegar hann sat að sumbli. Í læknabréfi heila- og skurðlækninga segir að hann hafi verið að skemmta sér, verið talsvert í glasi, skrikað fótur og fallið í gólfið.

Vitni var að atvikinu. Hún sagði við lögreglu að þau hefðu verið í „góðum fíling“ að tala saman. Þau hefðu drukkið mikið vín og byrjað að kyssast. Síðan hafi hann staðið upp og fallið. Önnur skýrsla var tekin af henni síðar og bar hún þá á sama veg nema hún bætti við að maðurinn hefði staðið upp, byrjað að taka saman eftir matinn og hrasað.

Það var mat úrskurðarnefndarinnar að þó slysið hefði átt sér stað í eldhúsi mannsins þá hefði það ekki átt sér stað við eðlileg heimilisstörf. „Úrskurðarnefnd fær því ráðið af gögnum málsins að fyrst hafi komið fram tenging á orsök slyssins við frágang eftir matseld í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands um sextán mánuðum eftir slysið,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Þá tók nefndin einnig fram að í tilkynningunni komi fram að maðurinn hafi verið að verið að vaska upp potta. Af því leiði að hann hljóti að hafa staðið við vask þegar atvikið átti sér stað. Það samræmist ekki lögregluskýrslum. Þær voru lagðar til grundvallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×