Innlent

Frístund skert hjá fötluðum börnum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Frá skólastarfinu í Klettaskóla en 106 nemendur stunda þar nám.
Frá skólastarfinu í Klettaskóla en 106 nemendur stunda þar nám. vísir/gva
Af hundrað börnum í Klettaskóla höfðu fimmtíu ekki fengið pláss í frístund eftir skóla þegar þrjár vikur voru liðnar af skólaárinu. Klettaskóli er sérskóli fyrir börn með þroskahömlun, væga þroskahömlun og viðbótarfatlanir, svo sem einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun.

Páll Guðbrandsson, faðir barns í Klettaskóla.
Til að koma til móts við þau fimmtíu börn sem eru á biðlistum hefur forstöðumaður brugðið á það ráð að hafa svokallað veltukerfi. Það þýðir að öll börn fá pláss en eingöngu þrjá daga í viku. Þetta er mikið álag á fjölskyldurnar enda benda foreldrar á að mörg þessara barna eigi erfitt með að rútínu þeirra sé raskað.

„Mörg barnanna eru með einhverfu og eiga mjög erfitt með að daglega lífið fari úr skorðum. Þar að auki eru möguleikar foreldra þessara barna á að sameinast um eftirlit eða pössun, nær engir,“ segir Páll Guðbrandsson, faðir drengs í skólanum.

Páll segist mæta miklum skilningi hjá sínum vinnuveitanda en því miður séu ekki allir í þeirri stöðu. „En verst er þetta fyrir börnin, þetta eykur streitu enda eiga mörg börnin erfitt með að skilja hvað er í gangi. Þetta er bara neyðarástand og það þarf aukna fjármögnun til að bregðast við þessu.“

Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar, tekur undir orð Páls. „Ástandið er ekki gott. Það hefur satt best að segja aldrei verið svona slæmt,“ segir hann. Auglýst hafi verið eftir fólki frá því síðasta vor og allar mögulegar leiðir notaðar. Reynt sé að ná til háskólafólks enda henti starfið með námi og sé þar að auki afar gefandi og skemmtilegt.

Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýri
„En launin þykja of lág. Fólki bjóðast önnur störf, til dæmis í veitingageiranum og störf tengd ferðamennsku. Síðustu daga höfum við meira að segja verið að missa frá okkur fólk sem ætlaði að vera hjá okkur í vetur.“

Til að bregðast við sárri neyð þeirra barna og foreldra sem ekki höfðu pláss var ákveðið að stytta vistunartíma en veita öllum börnum pláss. Það sé þó vissulega erfitt fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem voru komin með vistun fimm daga vikunnar, að missa tvo daga úr vikunni.

Haraldur segist dást að jákvæðni og baráttu foreldranna. „Samstarfið er frábært. Foreldrarnir hafa reynt að hjálpa og finna starfsfólk en það gengur illa. En auðvitað er þetta vond staða því foreldrar hafa engin önnur úrræði. Sumir standa frammi fyrir því að missa vinnuna enda vinnuveitendur orðnir langþreyttir á að taka svona mikið tillit til þeirra út af svona vandræðum.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Mótmæla að neyðarástand ríki í leiksskólunum

Framsókn og flugvallarvinir vilja skipa neyðarhóp um skólamál í borginni. Meirihlutinn vísaði tillögunni frá, ætlar að snúa vörn í sókn en mun ekki endurskoða hagræðingu upp á 670 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×