Innlent

Sneri aftur úr næsta stigagangi eftir matarboð og nauðgaði ölvaðri kunningjakonu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hæstiréttur lækkaði miskabótagreiðsluna úr 1,2 milljónum króna í 800 þúsund krónur. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hæstiréttur lækkaði miskabótagreiðsluna úr 1,2 milljónum króna í 800 þúsund krónur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Piotr Pawel, 37 ára gamall karlmaður, var í Hæstarétti í dag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun í desember 2013, með því að hafa haft samfarir og önnur kynmök við vinkonu eiginkonu sinnar gegn hennar vilja. Konan bjó í næsta stigagangi. Þau höfðu verið í samkvæmi hjá konunni fyrr um kvöldið þar sem hún varð veik sökum áfengisneyslu.

Piotr sneri aftur í íbúð konunnar þar sem hann hafði samræði við konuna sem gat ekki spornað við því sökum svefndrunga og ölvunar eins og segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem Hæstiréttur staðfesti í dag. Hæstiréttur lækkaði þó miskabótagreiðsluna úr 1,2 milljónum króna í 800 þúsund krónur.

Ástæða fyrir lækkun á miskabótunum var sú að skortur þótti á gögnum til stuðnings einkaréttarkröfunni. Því væri annað en óhjákvæmilegt að lækka bæturnar. Einn dómenda, Ólafur Börkur Þorvaldsson, var þó ósammála þeirri ákvörðun.

Piotr neitaði að hafa haft samfarir við konuna en sagðist þó hafa haft munnmök og snert kynfæri hennar með hennar vilja. Frásögn konunnar var metin trúverðug og lögð til grundvallar í málinu. Frásögn Piotr þótti ótrúverðug og stangast á við gögn málsins.

Ástæða er til að vara við umfjölluninni að neðan.

Ofurölvi og lagðist til hvílu

Fram kemur í dómnum að brotaþolinn í málinu bauð vinkonum sínum í heimsókn. Þegar leið á kvöldið bættust dæmdi í hópinn auk annars eiginmanns og var áfengi haft um hönd. Konan drakk of mikið áfengi og yfirgáfu gestirnir samkvæmið. Sammælast þeir um að hafa sagt konunni að læsa að sér þegar þau héldu heim á leið.



Konan segist hafa vaknað um klukkan sex um morguninn, verið klæðalaus að neðan og verið illt í móðurlífi, líkt og eftir kynlíf. Hún hefði aðeins verið klædd í blússu og brjóstahaldara, en hvort tveggja hefði verið upp um hana eins og einhver hefði rifið fötin upp. Dyrnar að íbúð hennar hefði verið lokaðar, en ólæstar. Hún minntist óljóst að hafa séð andlit dæmda fyrir sér en liði eins og að um draum væri að ræða.

Hún sagðist hafa fundið buxur sínar og nærbuxur í kuðli á svefnherbergisgólfinu. Ofan á fötunum hefði legið farsími, sem hún vissi ekki hver átti, en við skoðun mátti sjá skráð nýleg símtöl við eiginkonu og barn dæmda. Þá voru bláir marblettir á upphandleggjum konunnar. Hún var flutt á neyðarmóttöku og Piotr handtekinn á heimi sínu í næsta stigagangi.

Við skýrslutöku hjá lögreglu síðar um daginn greindi konan jafnframt frá því að þegar hún vaknaði hefði verið mikið af hári á koddanum hennar, eins og rifið hefði verið í hár hennar. Þá hefði brjóstahaldara hennar verið hneppt frá að aftan og hann færður af annarri öxlinni. Hún kvaðst minnast þess eins og í draumi að hafa séð andlit ákærða og hefði hún verið að streitast eða berjast á móti honum og sagt honum að gera þetta ekki.

Læsti ekki hurðinni

Piotr sagðist við yfirheyrslu hafa aðstoðað konuna þegar henni fór að líða illa í matarboðinu. Hún hefði spurt hvort hann gæti komið aftur síðar um kvöldið. Hann hefði svo yfirgefið íbúðina ásamt konu sinni og barni en þau bjuggu í næsta stigagangi.

Hann hafi svo komið aftur til hennar, þau heilsast og hann káfað á henni. Þau hefðu stundað munnmök og kynmök en ekki haft samræði. Þau hefðu svo legið saman í rúminu og hún tjáð honum að hana langaði að kynnast einhverjum og fá smá hlýju. Þá hefði hún talað fallega um eiginkonu ákærða. Hún hefði svo sagt honum að fara.

Hann hefði sagt henni að læsa á eftir sér en hún sagst ekki vilja að gera það því kannski myndi einhver koma og nauðga henni.

Ferskir áverkar við skoðun

Við skoðun á konunni á neyðarmóttöku kom fram að hún var með mar á vinstri upphandlegg, roð við hægri olnboga og sömuleiðis eymsli og fölan bláma á upphandleg hægra megin. Þá hafi verið áberandi roði og eymsli á vinstri geirvörtu.

Við kvenskoðun síðar um daginn mátti sjá roða og eymsli á ytri kynfærum og roða og eymsli í leggöngum ásamt húðblæðingum.

Læknir á neyðarmóttöku sagði fyrir dómi að áverkarnir hefðu verið ferskir. Áverkar í leggöngum hefðu verið eftir innþrengingu sem gæti hafa verið eftir getnaðarlim og nokkra fingur. Frásögn ákærða að hann hefði stungið einum fingri þar inn væri þó ekki nóg að hans mati til að framkvæma slíka áverka.

Ekki trúverðugt að konan hafi viljað kynferðismök

Dómurinn mat sem svo að greinilegt var af niðurstöðu alkóhólrannsóknar og framburði gestanna að konan hafi verið mjög ölvuð og ástand bágborið. Viðbrögð um morgunin bendi sömuleiðis til þess að hún hafi ekki samþykkt kynferðismökin. Vitnisburður lögreglukonu og læknis á Neyðarmóttöku staðfesti það.

Maðurinn neitaði alltaf að hafa haft samræði við konuna. Við rannsókn á sýni úr nærbuxum ákærða fannst blanda af DNA hans og konunnar og taldi sérfræðingur lögreglu ólíklegt að slíkt magn DNA frá konunni hefðu getað flust yfir í nærbuxur hans á annan hátt en með samræði. Umrætt sýni var úr sæðisbletti á nærbuxum dæmda.

Þótti fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur yfir skynsamlegan vafa hafinn að DNA úr konunni hefðu borist í nærbuxur hans á annan hátt en með samræði.

 

Þá þótti dómnum ekki trúverðugt að konan hefði sóst eftir kynferðismökum í því ástandi sem hún var í og öll vitni voru sammála um. Breyti þar engu um óljós frásögn tveggja vinkvenna þáverandi eiginkonu dæmda um að brotaþoli hafi sýnt dæmda áhuga í samkvæminu. Hafa verði náin tengsl vitnanna við þáverandi eiginkonuna í huga.

Frásögn konunnar trúverðugri

Héraðsdómur mat framburð konunnar trúverðugan en hann hefði verið á einn veg um þau atriði sem skiptu máli. Framburður ákærða væri aftur á móti ótrúverðugur um tiltekin atriði og í ósamræmi við gögn málsins.

Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn konunnar til grundvallar í málinu og hafna ótrúverðugum framburði ákærða um atvik. Þótti sannað, gegn neitun hans, að ástand konunnar hafi verið þannig að hún gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum svefndrunga og ölvunar.

Tveggja og hálfs árs fangelsisdómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í maí í fyrra og staðfestur með dómi Hæstaréttar í dag að frátöldum miskabótagreiðslum sem lækkaðar voru úr 1,2 milljón krónum í 800 þúsund krónur.

Dóminn í heild má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×