Innlent

Hótaði starfsmönnum Strætó með hnífi

sunna karen sigurþósdóttir skrifar
vísir/pjetur
Óskað var eftir aðstoð lögreglu um klukkan hálf þrjú í dag vegna karlmanns sem hafði haft í hótunum við starfsmenn Strætó við Hlemm. Hann hafði brotið rúðu á starfsmannasvæði vagnstjóra og þá beindi hann hnífi að starfsfólki þegar rætt var við hann.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi gefið sig sjálfur fram. Fljótlega hafi það orðið ljóst að hann ætti við andleg veikindi að stríða og var því boðin aðstoð við að fara á geðdeild til viðtals. Hann var lagður þar inn í framhaldinu.

Þá var jafnframt óskað eftir aðstoð lögreglu í Hlíðahverfi í Reykjavík í hádeginu í dag vegna karlmanns í annarlegu ástandi. Maðurinn var lagstur til hvílu fyrir utan húsnæði í hverfinu þegar lögreglu bar að garði. Hann fékk aðstoð við að koma sér heim en hann býr í næsta nágrenni, að því er segir í tilkynningunni.

Um klukkan eitt í dag hafði karlmaður í annarlegu ástandi dottið í runna og lá hann þar þegar lögregla kom á svæðið. Óskað var eftir sjúkrabíl vegna gruns um að maðurinn væri í hættu vegna mikillar morfínneyslu. Hann var fluttur á slysa- og bráðadeild til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×