Enski boltinn

Klopp að stela styrktarþjálfara Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kornmayer við störf hjá Bayern.
Kornmayer við störf hjá Bayern. Vísir/Getty
Liverpool hefur samkvæmt enskum fjölmiðlum gengið frá ráðningu Andreas Kornmayer sem aðalstyrktarþjálfara félagsins frá og með næsta keppnistímabili.

Kornmayer hefur síðustu ár starfað hjá Bayern München og með þjálfurum eins og Louis van Gaal, Jupp Heynckes og Pep Guardiola.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, virðist hafa haft augastað á Kornmayer í nokkurn tíma og telur að árangur Bayern árið 2013 sé að miklu leyti því að þakka hversu vel þjálfaðir leikmenn liðsins voru.

Bayern vann þrennuna það árið en Dortmund, sem var þá undir stjórn Klopp, hafnaði í öðru sæti deildarinnar og tapaði fyrir Bayern í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

„Ekki gleyma að Bayern-liðið sem vann þrennuna árið 2013 var ótrúlega sterkt og með alla sína leikmenn heila allt til loka tímabilsins,“ hefur Klopp sagt um árangurinn.

Kornmayer tekur við starfinu af Ryland Morgans sem hætti nýverið á Anfield eftir fjögurra ára starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×