Enski boltinn

Þrír Leicester-menn koma til greina sem leikmaður ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta hefur verið magnað tímabil hjá Leicester City.
Þetta hefur verið magnað tímabil hjá Leicester City. Vísir/Getty
Toppliðið og væntanlega verðandi Englandsmeistarar Leicester City eiga þrjá fulltrúa meðal þeirra sex sem eru tilnefndir sem leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni að mati leikmanna deildarinnar.

Leicester-mennirnir Jamie Vardy, Riyad Mahrez og N'Golo Kante koma allir til greina en auk þeirra eru þeir Dimitri Payet hjá West Ham, Harry Kane hjá Tottenham og Mesut Özil hjá Arsenal tilnefndir til verðlaunanna.

Jamie Vardy hefur skorað 21 mark og lagt upp önnur átta í 33 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, Riyad Mahrez er með 16 mörk og 10 stoðsendingar og þá hefur N'Golo Kante verið klettur á miðju liðsins og unnið fleiri bolta en nokkur annar í deildinni.

Harry Kane er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 22 mörk í 33 leikjum, Dimitri Payet hefur farið fyrir óvæntri frammistöðu West Ham og Mesut Özil er stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 18 stoðsendingar í 30 leikjum.

Það eru allir leikmenn í leikmannasamtökum ensku deildarinnar sem fá atkvæðarétt í kjörinu sem eru ein mesta viðurkenning sem leikmaður getur fengið.

Eden Hazard hjá Chelsea fékk þessi verðlaun í fyrra og árið á undan var Luis Suárez hjá Liverpool kosinn leikmaður ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×