Innlent

Mikilvægt að brýna fyrir börnum að forða sér og láta vita

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
„Í fyrsta lagi að hlaupa og láta vita,” segir Hrafndís Tekla Pálsdóttir, sálfræðingur, að séu mikilvægustu viðbrögðin ef börn lenda í aðstæðum þar sem reynt er að lokka þau eða tæla.

Hrafndís var gestur Eddu Andrésdóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld en Edda ræddi við hana í tengslum við atvik sem kom upp í Þorlákshöfn í gær. Þar reyndi maður að tæla níu ára dreng upp í bifreið sína en drengurinn sýndi hárrétt viðbrögð þegar hann reif sig lausan og hljóp á brott eftir að gerandinn kom aftan að honum á göngustíg í bænum.

Gagnlegt að leiða barnið í gegnum hugsanlegar aðstæður

Aðspurð um hvernig best sé að tala við börn um aðstæður sem þessar segir Hrafndís að gott sé að barnið sjái aðstæðurnar vel fyrir sér. „Það er mikilvægt þegar þú talar við barnið að hjálpa því að máta sig inn í aðstæðurnar, sjá þetta fyrir sér myndrænt og leiða það svolítið áfram. Við ímyndum okkur til dæmis að þú sért að labba heim úr skólanum, það stoppar bíll og rúðan er skrúfuð niður. Kannski er kallað á þig. Hvaða valkosti hefur þú þá aðra en að stíga upp í bílinn?” Hrafndís segir að brýna þurfi fyrir börnum að þau eigi að hlaupa í burtu í svona aðstæðum og láta vita.

Börnum tamt að hlýða fullorðnum

Samkvæmt Hrafndísi eru mál af þessu tagi ólík og tekur hún dæmi um mál þar sem gerandi laug að barni að móðir þess hefði lent í slysi. Börnum sé tamt að hlýða fullorðnum en í svona tilvikum er mikilvægt að brýna fyrir börnum að hringja í mömmu eða pabba eða hlaupa í burtu í stað þess að leggja traust á ókunnuga manneskju.

Falskt öryggi í hóp

Oft getur myndast falskt öryggi þegar börn eru í hóp. „Dæmin sýna að börn í hóp hafa verið tekin upp í bíl. Þá á líka að hringja í mömmu,“ fullyrðir Hrafndís.

Í sumum tilfellum kunna börnin jafnframt að kannast við þann sem reynir að lokka þau inn í bíl til sín og er mikilvægt að þau geri sér grein fyrir því að í slíkum aðstæðum sé best að hringja í foreldra eða forða sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×